Super Break fjölgar flugferðum til Akureyrar

30.11.2017 - 16:56
Mynd með færslu
Chris Hagan, umsjónarmaður Akureyrarflugsins hjá Super Break  Mynd: Markaðsstofa Norðurlands
Fjöldi gistinátta á Norðurlandi gæti tvöfaldast næsta vetur ef áform bresku ferðaskrifstofunnar Super Break ganga eftir. Beint flug á vegum hennar hefst til Akureyrar eftir áramót og nú hefur verið ákveðið að fljúga einnig í sumar og næsta vetur.

Super Break ákvað í haust að fara átta flugferðir, frá 11 mismunandi flugvöllum í Bretlandi, til Akureyrar eftir áramót. Þessum ferðum var fljótlega fjölgað í 14 nú í vetur.

Hafa bætt við ferðum í sumar og næsta vetur

Í morgun boðaði fulltrúi ferðaskrifstofunnar svo enn frekari aukningu að sögn Hjalta Páls Þórarinssonar, verkefnastjóra hjá Markaðsstofu Norðurlands. „Í júní og fram í júlíbyrjun þá ætla þeir að fljúga sjö flug. Og næsta vetur ætla þeir að leggja af stað með 22 flug og það er eitthvað sem þeir hafa möguleika á að auka við enn frekar, upp i allt að 36 flug."

Gistinóttum gæti fjölgað um helming yfir veturinn

Hjalti segir að koma þeirra ferðamanna, sem nýta sér flugið til Akureyrar, hafi mikil áhrif. Sérstaklega yfir háveturinn. Flugið í vetur gæti skilað um 9000 gistinóttum og þar með aukið heldarveltu ferðaþjónustunnar á Norðurlandi um 15 til 20 prósent á þeim tíma. Og ef boðuð viðbót Super Break gangi eftir verði aukningin enn meiri. „Þá gæti þessum gistinóttum fjölgað um allt að helming ef salan gengur vel næsta vetur,“ segir hann.

Þegar kominn biðlisti

„Og nýtingin í þetta flug er mjög góð. Það er þegar búið að selja um 84 til 85 prósent af sætunum í flugið núna í janúar og febrúar. Þeir gera ráð fyrir að selja að minnsta kosti 95 prósent af þeim. Og þeir eru komnir með biðlista af fólki sem er tilbúið að bóka þegar salan á vetrarfluginu 2018/2019 kemur inn hjá þeim," segir Hjalti.

Ætla að hefja sölu á ferðum frá Akureyri til Bretlands

Hingað til hefur þetta flug aðeins verið í boði fyrir farþega frá Bretlandi til Akureyrar, en Hjalti segir að það muni nú breytast. „Það sem þeir segja mér er að þeir eru að horfa til þess að bjóða líka upp á pakka frá Akureyri til Bretlands. Það var eitthvað sem þeir reiknuðu ekki með að yrði eftirspurn eftir, en kom á daginn að hún er vissulega til staðar. Og þeir horfa til þess bæði í sumar og næsta vetur að þá muni ákveðnar brottfarir verða í boði til þess að kaupa pakka út líka," segir hann.

Mynd með færslu
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV