Suður-Kórea vill endurfundi aðskildra ættingja

08.01.2018 - 05:58
epa06423753 Unification Minister Cho Myoung-gyon, South Korea's chief delegate to the first high-level inter-Korean talks in more than two years, reports to work at his office in downtown Seoul, South Korea,  08 January  2018. The meeting will take
Cho Myoung-Gyon, sameiningarráðherra Suður-Kóreu.  Mynd: EPA-EFE  -  YNA
Suður-Kóresk stjórnvöld ætla að leggja til endurfundi fjölskyldna í viðræðum sínum við Norður-Kóreu á morgun. Norður-kóresk stjórnvöld segja engin utanaðkomandi ríki þurfa til að standa að sameiningarviðræðum Kóreuríkjanna.

Talið er að viðræðurnar á morgun komi að mestu leyti til með að snúast um þátttöku norður-kóreskra keppenda á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang í Suður-Kóreu í næsta mánuði. Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, viðraði þá hugmynd í áramótaávarpi sínu. Suður-kóresk stjórnvöld sendu strax fundarboð til Norður-Kóreu, sem var samþykkt á föstudag. Fulltrúar ríkjanna koma saman í landamæraþorpinu Panmunjom, á hlutlausa svæðinu.

Sameiningarráðherrann Cho Myoung-Gyon sagði fréttamönnum í gær að Suður-Kórea ætli að bera upp þá hugmynd að leyfa fjölskyldum sem skildust að eftir Kóreustríðið að eiga endurfundi. Slíkt er fátítt, en slíkir endurfundir hafa ekki orðið síðan 2015. Þá segir Cho að Suður-Kórea vilji ræða leiðir til að minnka spennuna á milli ríkjanna.

Norðan landamæranna var greint frá því á ríkisfréttastofunni að þar sé kallað eftir sjálfstæðum sameiginlegum viðræðum Kóreuríkjanna. Lykilinn að bættum samskiptum þeirra sé ekki að finna utan Kóreu, heldur meðal kóresku þjóðarinnar. Smjaður og traust á utanaðkomandi ríki sé sem eitur sem slævi þjóðina. 

Líklegt er að fréttastofan eigi þarna við Bandaríkin, sem hafa undanfarna mánuði staðið í sameiginlegum heræfingum með Suður-Kóreu við Kóreuskaga. Hótanir hafa gengið á víxl á milli leiðtoga Norður-Kóreu og Bandaríkjanna, og fóru þær sennilega hæst í byrjun árs þegar Trump Bandaríkjaforseti ákvað að metast um stærð kjarnorkusprengjutakka. Trump hefur sjálfur greint frá því að hann vonist til þess að viðræðurnar á morgun komi til með að snúast um meira en Ólympíuleikana. Þá kvað hann Bandaríkin reiðubúin að koma inn í viðræðurnar þegar líður á þær.