Stórt tap í Svartfjallalandi

14.02.2018 - 19:40
Mynd með færslu
Helena Sverrisdóttir var stigahæst að venju  Mynd: Skjáskot RÚV
Íslenska landsliðið mætti Svartfjallalandi ytra í undankeppni Evrópumótsins 2019 í dag. Var þetta annar leikur liðsins á skömmum tíma en liðið tapaði með 30 stigum gegn Bosníu á dögunum. Ekki var leikurinn í kvöld skárri en íslenska liðið tapaði með 32 stiga mun þar sem Ísland skoraði aðeins 6 stig í síðari hálfleik, lokatölur 69-37.

Leikurinn byrjaði mjög rólega en fyrsta karfa leiksins kom ekki fyrr en rúmlega tvær mínútur voru liðnar af leiknum. Sóknarleikur beggja liða í upphafi var ekki mikið fyrir augað en um miðbik 1. leikhluta var staðan 4-3 Íslandi í vil Það fór svo að Ísland var á endanum tveimur stigum yfir að honum loknum, staðan 14-12 og Helena Sverrisdóttir með 11 stig Íslands á þeim kafla.

Svartfellingar jöfnuðu leikinn snemma í 2. leikhluta og var mikið jafnfræði með liðunum á næstum mínútum. Íslenska liðið komst reyndar fimm stigum yfir, 21-16. Því svöruðu heimakonur með sjö stigum í röð og Ísland komið undir. Munurinn var orðinn fjögur stig í hálfleik, staðan þá 35-31. 

Skelfilegur síðari hálfleikur

Íslenska liðið byrjaði síðari hálfleik mjög illa og var fljótlega komið 10 stigum undir. Í kjölfarið hrundi leikur íslenska liðsins en liðið skoraði aðeins þrjú stig í öllum 3. leikhluta leiksin og munurinn kominn í 20 stig þegar honum leik. Staðan að honum loknum var 54-34.

Ekki skánuðu hlutirnir í 4. leikhluta en aftur tókst íslenska liðinu aðeins að skora þrjú stig. Lokatölur 69-37 og Ísland því búið að tapa öllum leikjum sínum í undankeppni Evrópumótsins sem fram fer á næsta ári.

Tölfræði leikmanna

Helena Sverrisdóttir setti 22 stig hjá íslenska liðinu ásamt því að taka 9 fráköst. Elín Sóley Hrafnkelsdóttir kom þar á eftir með 8 stig á meðan Dýrfinna Arnardóttir setti 3 stig. Þær Berglind Gunnarsdóttir og Hildur Björg Kjartansdóttir settu svo 2 stig hvor en Hildur tók einnig 7 fráköst.

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður

Tengdar fréttir