Mynd með færslu
08.12.2017 - 11:33.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Nýjasta plata Bjarkar, Utopia hljómar dálítið eins og eftirspil við síðustu plötu, hina ægisorglegu og erfiðu Vulnicura. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Björk mun vonandi aldrei gera plötu eins og Vulnicura aftur. Ekki vegna þess að hana skorti tónlistarleg gæði – sem voru í hæstu hæðum – heldur vegna þeirra aðstæðna sem stýrðu gerð hennar. Erfiður skilnaður og öll þau hjartasár og magapínur sem því fylgja. Tónlistarlega er sú plata afrek og ég man hreinlega ekki eftir því að hafa heyrt annað eins.

Öðruvísi

Utopia er öðruvísi. Þó það nú væri. En á engu að síður ýmislegt sammerkt með fyrirrennaranum. Ég tengi þessar plötur óhjákvæmilega saman. Og þær eru tengdar, textalega sem tónlistarlega. Á þessari plötu hér er Björk hins vegar komin út úr alltumlykjandi ástarsorginni og stendur fyrir utan hlaðið, horfandi í kringum sig. Andandi að sér lofti, sem er jú temað og skýrir ríka notkun blásturshljóðfæra. Maður finnur að styrkur Bjarkar, sálrænn, er meiri. Vulnicura var eintóna, ein tilfinning og átti sér stað á einum hrikalegum stað. Hér er hins vegar alls konar í gangi, alls konar tilfinningar; eftirsjá, forvitni, gleði og spurn. Meðal annars.

Þeir sem voru að vonast eftir afturhvarfi til melódískari smíða í ætt við fyrstu þrjár plötur Bjarkar vegna þessa léttis geta hins vegar gleymt því. Utopia er alveg jafn súr og utangarðs og Vulnicura, þetta er eins mikil jaðartónlist og það verður. Ég er með fagtímaritið mitt, Record Collector, hérna við hliðina á mér og blaðið stillir Utopiu fram sem plötu mánaðarins. Þar er henni ágætlega lýst: „Platan er hlý og hamingjurík en um leið meðvitað á jaðrinum, tónlistarlega. Hún deilir sama drama og var á síðasta verki um leið og hún stillir upp andstæðum; viðkvæmri fegurð og grimmilegum hroða.“

Já, það er ekkert í líkingu við „It‘s Oh So Quiet“ hérna og þessi plata var lengi í gang hjá mér. Við fyrstu hlustanir fannst mér hún svo gott sem klisjukennd. Eins og sum lögin væru að spýtast út úr „Bjork Song Generator“. Ég læt þessa setningu hanga, hún á að einhverju leyti rétt á sér, þó að ég sé að fjarlægast hana meir og meir með hverri hlustun. Þessi plata er nefnilega, þegar allt er saman tekið, frábær. Einstök, nákvæmlega eins og síðasta plata. Og allar plötur Bjarkar ef út í það er farið.

Hugsanaflæði

Enn vinnur Björk með þetta opna hugsanaflæði sem var að finna á Vulnicura og sumt þar gengur illa upp. Textinn á „Tabula Rasa“ er heiðarlegur en ... samt. „Sue Me“ er einnig gott dæmi um þetta, lag sem er ekki gott textalega en tónlistarlega algerlega frábært. Plötuna vinnur hún með hinum venesúelska Arca og taktar, útsetningar og hljóðvinnsla er ljósárum á undan ... ja ... hverju sem er. Á 70 mínútna plötu (lengsta plata Bjarkar til þessa) er þá nóg af alls kyns góðgæti og Björk misstígur sig varla. „Features Creatures“ er magnað, yndislega undarlegt og með tilþrifamiklum íslenskum r-um í framburði sem er algerlega yndislegt. „Lossss“ er eitt af þessum hlöðnu lögum, mikið að gerast í hljóðrásunum; hvassir taktar, ókennileg hljóð, flautur og hörpur í belg og biðu. Titillagið einkennist af flautuleikurunum tólf og fuglahljóðum og kallar fram hugmyndir um framandi veröld, líkt og „Paradisa“, sem er stutt en hnitmiðað.

Og svo má telja. Þessi plata er ógurleg og eins og segir, gefið henni tíma. Þungur hnífur sem á að vera þungur. Höfum nefnilega eitt á hreinu, það gerir enginn plötur eins og Björk. Manneskjan er í algjörum sérflokki og í allt annari deild en flestir. Fara kraftar hennar þverrandi? Nei, „þvert“ á móti.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Brunað á teinum fagurra tóna

Tónlist

Skrítið, skælt og skítugt

Popptónlist

Höfgi bundin hádramatík

Popptónlist

Einlægt og ágengt