Starfsmaður Sinnum með stöðu sakbornings

11.10.2017 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Starfsmaður einkarekna heimahjúkrunarfyrirtækisins Sinnum hefur stöðu sakbornings í lögreglurannsókn vegna andláts átta ára stúlku. Stúlkan lést eftir að hafa orðið fyrir heilaskaða í umsjón fyrirtækisins árið 2014. Reykjavíkurborg, sem keypti þjónustuna, hefur ekki skipt við fyrirtækið undanfarin tvö ár.

Heimahjúkrunarfyrirtækið Sinnum var á dögunum dæmt til að greiða móður stúlkunnar þrjár milljónir króna í miskabætur, en héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hefði með stórkostlegu gáleysi valdið dauða barnsins.

Stúlkan, Ella Dís Laurens, var haldin ólæknandi taugasjúkdómi og var tengd við öndunarvél í gegnum barkatúbu í hálsi. Að jafnaði fékk Ella Dís fylgd þroskaþjálfa í skólann en í mars 2014 forfallaðist hann og þá fékk Sinnum ófaglærðan starfsmann til að fylgja henni. Þann dag færðist öndunartúba Ellu Dísar úr stað, með þeim afleiðingum að súrefnismettun hennar féll og hún varð fyrir miklum heilaskaða sem að lokum dró hana til dauða. Hún lést tæpum þremur mánuðum síðar.

Hafið yfir vafa að andlát barnsins var vegna þess að hún varð fyrir alvarlegum súrefnisskorti

Sinnum neitaði sök fyrir dómi og neitaði einnig að andlát stúlkunnar mætti rekja til þessa atviks. Dómurinn hafnar því og telur hafið yfir vafa að barnið hafi látist vegna þess að það hlaut óafturkræfan heilaskaða vegna súrefnisskorts þennan dag. Samkvæmt dóminum sýndu stjórnendur Sinnum af sér stórfellt gáleysi með því að setja ófaglærðan starfsmann í aðstæður sem hún gat ekki ráðið við. Starfsmanninn hafi skort tilfinnanlega nauðsynlega þekkingu og reynslu til starfans. Hún hafði enga formlega menntun umfram grunnskólanám og ekkert benti til að hún hafi fengið nægilega fræðslu um umönnun barna í öndunarvél, segir í dóminum. Starfsmaðurinn hefur stöðu sakbornings í rannsókn lögreglu á málinu.

Reykjavíkurborg, sem keypti hjúkrunarþjónustuna af Sinnum, var sýknuð af kröfu um miskabætur. Samkvæmt svari við fyrirspurn fréttastofu hefur Reykjavíkurborg ekki átt í viðskiptum við Sinnum á þessu eða síðasta ári.

Uppfært:  Samkvæmt uppfærðu svari frá Reykjavíkurborg voru samningar í gildi við fyrirtækið til ársins 2016. Enginn samningur er í gildi nú. Aðspurð hvort þetta atvik hefði haft áhrif á það hvort Reykjavíkurborg skipti við fyrirtækið segir í svari Reykjavíkurborgar að meira sé ekki um málið að segja að svo stöddu, þar sem málið er ekki til lykta leitt, og ekki liggi fyrir hvort því verður áfrýjað. Því sé ekki unnt að tjá sig frekar um það.