Starfshópur gegn kynbundinni áreitni

12.01.2018 - 14:27
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson  -  RÚV
Stofnaður verður starfshópur á vegum menntamálaráðuneytis og íþróttahreyfingarinnar sem leggja á fram aðgerðir til að samræma og betrumbæta utanumhald um brot tengd kynferðislegu ofbeldi og áreitni. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hitti talskonur íþróttakvenna í morgun til að ræða yfirlýsingu þeirra og frásagnir af kynbundnu ofbeldi og mismunun í íþróttastarfi.

Fulltrúar íþróttakvenna afhentu Lilju Dögg yfirlýsingu sína í morgun og gerðu henni grein fyrir undirbúningsvinnunni að baki henni. Fulltrúar ÍSÍ og UMFÍ sátu einnig fundinn. Þar voru næstu skref ákveðin. „Þær komu með tillögur að því hvernig styðja megi alla umgjörð er tengist kynbundnu ofbeldi hjá íþróttahreyfingunni. Í kjölfarið af fundinum var ákveðið að það yrði settur á stofn starfshópur sem myndi leggja til aðgerðir um hvernig megi samræma og betrumbæta allt utanumhald er varðar þessi mál,“ segir Lilja Dögg.  

Hún kveðst afskaplega þakklát þeim konum sem hafa tekið þátt í metoo-byltingunni. Hún kveðst ekki síður þakklát íþróttahreyfingunni, forystu ÍSÍ og UMFÍ, fyrir að koma strax að málinu með ráðuneytinu. „Við settum þetta allt af stað í gær í kjölfar þessarar yfirlýsingar og þessara mála sem hafa verið að koma upp. Auðvitað verður ekki unað við þetta lengur.“

Þetta eru mjög alvarlegar sögur sem þarna koma fram. Hvernig varð þér við að heyra þessar sögur? 

„Auðvitað brá mér verulega. Ég var nú í íþróttahreyfingunni á mínum yngri árum og auðvitað vissi maður af ýmsu sem var í gangi en hversu umfangsmikið og alvarlegt þetta var, það hefur komið mér á óvart, ég verð að segja það.“ 

Er eitthvað af þessu sem þú kannast við af eigin skinni?

„Ég get ekki sagt það en hins vegar er það þannig að þetta er það umfangsmikið að það er alveg ljóst að við erum að fara í þessa vinnu.“

Mennta- og menningarmálaráðuneyti stýrir vinnu hópsins. Lilja Dögg kveðst eiga von á vel úthugsuðum tillögum þegar starfshópurinn hefur lokið störfum.