Spenna í Kinshasa

31.12.2017 - 10:35
epa04627678 Joseph Kabila Kabange (R), President of the Democratic Republic of the Congo, during a meeting with German Foreign Minister Frank-Walter Steinmeier (not pictured), in Kinshasa, 19 February 2015. Congo is the first stop in Steinmeier's
Joseph Kabila.  Mynd: EPA  -  DPA
Her og lögregla er með aukinn viðbúnað í Kinshasa, höfuðborg Kongó, vegna áformaðra mótmæla stjórnarandstöðunnar í landinu. Í morgun réðst lögregla að fólki við  kirkjur kaþólskra í borginni, beitti sums staðar táragasi og skaut viðvörunarskotum upp í loftið. 

Stjórnarandstæðingar úr röðum kaþólskra höfðu boðað til mótmæla að lokinni messu í dag, en þeir krefjast þess að Joseph Kabila, forseti landsins, lýsi því yfir og heiti að sækjast ekki eftir endurkjöri í næstu kosningum, enn fremur að pólitískum föngum verði sleppt.

Lögreglan í Kinshasa hefur bannað öll mótmæli og fundarhöld í borginni og var í morgun viðbúin því að stöðva allar tilraunir til slíks. Á einum stað var táragasi skotið inn í kirkju þar sem fjöldi fólks var við messu og á öðrum stað höggsprengjum beitt gegn hópi fólks sem reyndi að fara í mótmælagöngu með biblíuna á lofti. Þá voru tólf altarisþjónar handteknir fyrir að mótmæla Kabila forseta.

Kjörtímabil Kabila á forsetastóli átti að renna út 20. desember í fyrra. Um síðustu áramót náðist samkomulag milli Kabila og stjórnarandstöðunnar um að hann fengi að sitja áfram fram yfir kosningar sem halda skyldi fyrir lok þessa árs og að þá yrði kjörinn arftaki hans.

Kjörstjórn sagði seinna að tíminn væri of naumur til þess og stefnir að kosningum 23. desember á komandi ári. Stjórnarandstaðan er afar ósátt við þetta og telur að Kabila sé að reyna að tryggja sér áframhaldandi völd.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV