Sóttu lík tveggja skipverja í logandi olíuskip

14.01.2018 - 05:33
Erlent · Asía
epa06424506 A handout photo made available by the South Korean Coast Guard on 08 January 2018 shows Panama-registered tanker 'Sanchi' on fire after a collision with Hong Kong-registered freighter 'CF Crystal,' off China's eastern
 Mynd: EPA
Björgunarlið komst um borð í olíuskipið Sanchi og tókst að sækja lík tveggja skipverja og hinn svokallaða „svarta kassa" skipsins áður en það þurfti að forða sér undan reykjarmekki og ógnarhita. Eldur kom upp í Sanchi eftir árekstur við flutningaskip fyrir viku síðan og stendur skipið enn í ljósum logum þar sem það er á reki á Kínahafi, miðja vegu milli Japans og Kína.

Í tilkynningu frá kínverska samgönguráðuneytinu segir að fjórir björgunarliðar með reykgrímur og súrefniskúta hafi verið látnir síga niður á þilfarið á skipinu aftanverðu. Þar hafi þeir fundið lík tveggja skipverja í björgunarbát. Eftir að þeim tókst að sækja svarta kassann freistuðu þeir þess að komast að vistarverum áhafnarinnar en hitinn og reykurinn var of mikill og þeir urðu frá að hverfa, eftir um klukkustundar veru um borð.

Lík þriggja af 32 manna áhöfn skipsins hafa nú fundist. 30 Íranir voru í áhöfninni og tveir Bangladessar. Tólf manna sérsveit frá Íran er á leið á vettvang til að aðstoða við slökkvi- og björgunaraðgerðir. Þrettán skip; tíu kínversk, tvö japönsk og eitt frá Suður Kóreu taka þátt í björgunaraðgerðum en slæmt veður hefur torveldað þær mjög.

Skipið var á leið frá Íran til Suður Kóreu þegar áreksturinn varð, laugardaginn 6. janúar og eldur gaus upp nánast um leið, sem fyrr segir. Um 136.000 tonn af olíu voru um borð í Sanchi og óttast var að hún færi í sjóinn ef ekki tækist að slökkva eldinn fljótlega. Gríðarleg sprenging á föstudag sló á allar væntingar um að það tækist. Samkvæmt kínverskum yfirvöldum hefur ekki orðið vart við meiriháttar olíuleka enn sem komið er. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV