Sönnunargagnið er astraltertukubbur

Gagnrýni
 · 
menning
 · 
Popp
 · 
Poppland
 · 
Stuðmenn
 · 
Tónlist
 · 
tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni

Sönnunargagnið er astraltertukubbur

Gagnrýni
 · 
menning
 · 
Popp
 · 
Poppland
 · 
Stuðmenn
 · 
Tónlist
 · 
tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
26.12.2017 - 11:00.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Stuðmenn, hljómsveit allra landsmanna, gefur út svofelldan astraltertukubb nú fyrir jólin, forláta gripur sem inniheldur ellefu ný lög ásamt ýmsu öðru. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í kubbinn sem er plata vikunnar á Rás 2.

Maður á þær margar, bransaminningarnar, eftir árafjöld í þessum blessaða, íslenska tónlistarheimi. Og mikið sem hann getur verið skondinn og skemmtilegur. Ein var að bætast við, þegar ég og Jakob Frímann Magnússon bogruðum saman við það inni í einu af hljóðverum útvarpsins við að setja saman þann forláta astraltertukubb sem hér er til umfjöllunar. Þetta er ein af þessum senum sem maður setur meðvitað í „geymist“ hólfið í heilanum.

Ódauðlegt

Og hverjum öðrum en Stuðmönnum, hljómsveit allra landsmanna, myndi detta annað eins í hug? Astraltertukubburinn (vísun í eitt af atriðum hinnar ódauðlegu Með allt á hreinu) ber nafn trymbilsins, Ásgeirs Óskarssonar, og er silfraður og ferningslaga, líkt og flasskubbur myndavéla. „Við hefðum tekið myndir, en höfðum engan kubb,“ segja Stuðmenn í áðurnefndri mynd, en ræða aftur á móti um astraltertugubb. Yngri lesendur eru mögulega komnir með hringl í hausinn við lestur á meðan eldri vita upp á hár hvað ég er að tala um.

Kubburinn er nánast eins og gestaþraut því hann er hægt að taka í sundur og breytist hann þá í fjóra silfraða pýramída (ég trúi því ekki að ég sé að skrifa þetta) og á toppi eins þeirra er pínulítil plata. Þar er að finna aðangsupplýsingar að vefsíðu hvar hægt er að hala niður ellefu nýjum Stuðmannalögum. Inni í pýramídunum er svo að finna ýmsislegt; saltstengur, jólaskraut, heilræði o.fl.. Mjög jóla- og áramótalegt og afar vel við hæfi að síðasta plata vikunnar hér á Rás 2 sé á vegum þessarar mektarsveitar.

Konunglegt

Víst er að liðsmenn hafa skemmt sér konunglega við upptökur laga og leyft sér að sletta ærlega úr klaufunum, tónrænt séð. Farið er víða um völl; stuðlög og ballöður í einum bing. „Jói í sjoppunni“ er giska grípandi, rokkuð smíð og Egill jafnhattar það af mikilli list. Hann setur svo á sig sjóhattinn (sem hann ætti að þekkja vel) í „Hvít segl“, lag sem er í djúpum reggígír. Hljómurinn feitur og umlykjandi. Stuðmenn hylla svo trommara sinn í samnefndu lagi, fara svo í „Býsna fönkí“ gír og sprella í „Ester best er“ og bjóða okkur fransbrauð þar í leiðinni. Dísa Jakobs á þá tvö virkilega góð innslög, annars vegar í laginu „Örstutt lag“ sem lýsir lífinu sem nákvæmlega því, örstuttu lagi, og kubbnum er lokað af smekkvísi með „Vor fyrir vestan“, vel heppnuð og melódísk smíð. Hljóðfæraleikur, hljómur og slíkt er í hæstu hæðum og ég er sérstaklega ánægður með flottan gítarleik en þar fer Guðmundur Pétursson. Hann leyfir honum oft að ýlfra á óvæntan máta og ljóst að ekkert er gefið á þessu furðuverki.

Í Astraltertukubbnum upplýkst enda heimur Stuðmanna. Við hin búum bara þar.