Snurða á kólumbískum friðarþræði

11.01.2018 - 04:52
epa06429296 A handout photo made available by the Colombian Presidency shows President of Colombia Juan Manuel Santos (R), accompained by the High Commissioner for Peace Rodrigo Rivera (L), during a speech in Bogota, Colombia, 10 January 2018. Santos
Juan Manuel Santos, Kólumbíuforseti (t.h.) ávarpaði þjóð sína í gær, miðvikudag, og sagðist hafa kallað formann samninganefndar stjórnvalda heim frá friðarviðræðum við Frelsisher Kólumbíu.  Mynd: EPA-EFE  -  COLOMBIAN PRESIDENCY
epa06429584 Chief of the ELN's negotiation team Israel Ramires Pineda, alias 'Pablo Beltran', reads a statement in Quito, Ecuador, 10 January 2018. Colombian President Juan Manuel Santos ordered that the Government's negotiation team
pablo Beltrán, formaður viðræðunefndar Frelsishers Kólumbíu, las upp yfirlýsingu í Kító þar sem hann óskaði eftir framlengingu vopnahlés og framhaldi á friðarviðræðum.  Mynd: EPA-EFE  -  EFE
Juan Manuel Santos Kólumbíuforseti hefur kallað formann samninganefndar sinnar heim frá samningaborðinu í Kító í Ekvador, þar sem friðarviðræður áttu að hefjast á ný í gær við fulltrúa Frelsishers Kólumbíu. Ástæðan er sú, að skömmu eftir að umsamið vopnahlé rann út notuðu nokkrir vígamenn úr röðum Frelsishersins tækifærið til að ráðast á flotastöð Kólumbíuflota og vinna skemmdarverk á olíuleiðslu.

„Ríkisstjórnin var alltaf reiðubúin að framlengja vopnahléð," sagði Santos í sjónvarpsávarpi síðdegis í gær, „Af óskiljanlegum ástæðum hafnaði frelsisherinn því." Í ljósi þessa, sagði forsetinn, sá hann þann kost einan í stöðunni að kalla formann samninganefndar Kólumbíustjórnar heim frá Kító til að ráðgast við hann um næstu skref. Nokkru síðar á miðvikudag hvöttu talsmenn Frelsishersins forsetann til að hefja viðræður á ný.

Aðalsamningamaður skæruliðasveitarinnar, Pablo Beltrán, lýsti því yfir að báðir deiluaðilar yrðu að nota tækifærið og freista þess að finna pólitíska lausn á deilunni. „Við ættum ekki að hrófla við samningaviðræðunum," sagði Beltrán, og fullyrti að Frelsisherinn væri þess mjög fýsandi að semja um áframhaldandi vopnahlé.

Frelsisherinn lýsti því yfir í mars 2016, að hann væri reiðubúinn til formlegra friðarviðræðna við stjórnvöld. Þær byrjuðu þó ekki fyrr en í febrúar 2017 og gengu brösuglega lengi vel. Það var ekki fyrr en í september að loks tókst að semja um vopnahlé við Frelsisherinn í fyrsta sinn, eftir ríflega hálfrar aldar átök.

Það vopnahlé gilti fram á þriðjudag í þessari viku og aðeins nokkrum klukkustundum síðar höfðu menn úr röðum Frelsishersins kastað handsprengjum inn á flotastöð og unnið skemmdarverk á Caño Limón-olíuleiðslunni. Um hana er flutt hráolía frá samnefndu olíuvinnslusvæði og er hvort tveggja rekið í sameiningu af kólumbíska ríkisolíufélagsins Ecopetrol og bandaríska olíufyrirtækisins Occidental Petroleum. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV