Snorri Einarsson í 56. sæti

11.02.2018 - 13:21
Mynd með færslu
Snorri hefur eflaust ekki brosað svo breitt eftir niðurstöðu dagsins  Mynd: Skíðasamband Íslands
Snorri Einarsson lauk keppni í 56. sæti í 30 kílómetra skiptigöngu karla á Vetr­arólymp­íu­leik­un­um í Pyeongchang í Suður-Kór­eu í morg­un. Snorri var 7,13 mínútum á eftir Norðmanninum Simen Hegstad kruger sem vann greinina.

Í skiptigöngu eru fyrri 15 kílómetrarnir með hefðbundinni aðferð áður en skipt er um búnað og lagt af stað í síðari 15 kílómetrana sem eru farnir með frjálsri aðferð.

Snorri kom í mark á einni klukkustund, 23 mínútum og 33 sekúndum. Árangurinn eflaust undir væntingum Snorra sem var töluvert á eftir fremstu mönnum og lauk leik eins og áður sagði í 56. sæti. 

Það var ekki langt liðið á gönguna þegar hasarinn hófst, en Simen Hegestad Kruger frá Noregi varð fyrir því óláni að detta í upphafi göngunnar og brjóta staf, tók hann með sér niður tvo Rússa í byltunni, þá Andrey Larkov og Alexey Vitsenko. Hegestad lét það ekki á sig fá en honum tókst að vinna eftir æsispennandi keppni en Norðmenn röðuðu sér í þrjú efstu sæti keppninnar.

Snorri var fyrsti Íslendingurinn til að keppa á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang í Suður-Kór­eu en á morgun keppir Freydís Halla Einarsdóttir í stórsvigi.

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður