Slökkvistarfi lokið í Hellisheiðarvirkjun

12.01.2018 - 17:44
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson  -  RÚV
Slökkvistarfi er lokið í Hellisheiðarvirkjun en eldur kom upp í þaki stöðvarhússins um ellefu-leytið í morgun. Ekki er útlit fyrir að verulegt tjón hafi orðið á framleiðslubúnaði virkjunarinnar og reiknað er með að búnaðurinn sem slökkt var á skili fullum afköstum um eða eftir helgi. Brunavarnir Árnessýslu munu engu að síður standa vaktina við virkjunina í nótt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orku náttúrunnar.

Þar segir enn fremur að ekki sé vitað upptökin en að eldurinn hafi logað í um tvo tíma í loftræsisbúnaði og þaki miðhluta stöðvarhússins, þar á meðal þakpappa sem gaf frá sér talsverðan reyk. Þegar er byrjað að undirbúa viðgerðir á þakinu.

Þá segir í tilkynningunni að reglulegar æfingar starfsfólks í virkjunum Orku náttúrunnar með Brunavörnum Árnessýslu og slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hafi skilað sér í markvissum viðbrögðum við eldinum.