Skylt að upplýsa um fjölda sláturgrísa

09.01.2018 - 17:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Matvælastofnun er skylt að veita upplýsingar um það hve mörgum grísum frá svínabúi Stjörnugríss á Melum á Vesturlandi var slátrað árið 2016, samkvæmt úrskurði Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Óskað var eftir þeim upplýsingum í júlí síðastliðnum en Matvælastofnun synjaði beiðninni. Synjunin var kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Matvælastofnun barst beiðni um upplýsingar um svínabúið í fjórum liðum. Stofnunin veitti aðgang að gögnum varðandi þrjá liði en ekki þann fjórða um fjölda grísa sem slátrað var árið 2016. Í tilkynningu á vef stofnunarinnar segir að beiðninni hafi verið synjað þar sem talið var að þær upplýsingar væru mikilvægir viðskiptahagsmunir svínabúsins sem stofnuninni væri óheimilt að greina frá.

Í úrskurði Úrskurðarnefndar um upplýsingamál segir að Matvælastofnun sé skylt að veita aðgang að þeim gögnum. Fyrirtækið reki að minnsta kosti fjögur önnur svínabú til viðbótar því á Vesturlandi. Þá séu upplýsingar um stærð búsins á almannavitorði meðal annars vegna fyrri dómsmála. Því geti birting upplýsinganna ekki skaðað samkeppnisstöðu fyrirtækisins, að því er segir í úrskurðinum sem kveðinn var upp 3. janúar.  

Dagný Hulda Erlendsdóttir