Skrítið, skælt og skítugt

Gagnrýni
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni

Skrítið, skælt og skítugt

Gagnrýni
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
24.11.2017 - 11:32.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Roforofo er sveit þeirra Ómars Guðjónssonar og Tommy Baldu og fyrsta plata hennar er samnefnd henni. Innihaldið er rokk en samt ekki. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Ómar Guðjónsson gítarleikari á nú að baki langan og farsælan feril. Hann kom fyrir sjónir manns upphaflega sem einn liðsmanna Funkmaster 2000 en fór svo fljótlega á sýrðari grundir (ásamt reyndar nokkrum félögum sínum úr þeirri sveit). Ómar er skólaður í djassi og upp úr aldamótunum hóf hann að láta til sín taka í þeim fræðunum og var einn af þeim sem bar með sér ferska vinda inn í íslenska djassheiminn (Ómar, Davíð Þór, Helgi Svavar og Valdi Kolli t.d., allir með honum í Funkmaster!). Ómar hefur gefið út sólóplötur, starfað með ADHD, Jagúar, Geislum o.fl. og þessi hljómsveit, Roforofo er dúett hans og Þjóðverjans Tommy Baldu. Þeir félagar sjá um hljóðfæraleik að mestu en þeir njóta og liðsinnis gesta eins og Bjarna Frímanns Bjarnasonar, Davíðs Þórs Jónssonar, Óskars Guðjónssonar, Sigríðar Thorlacius og Rósu Guðrúnar Sveinsdóttur.

Mynd með færslu
 Mynd: Roforofo

Sleppur

Plata þessi sleppur dálítið skemmtilega undan skilgreiningum, það blasir ekkert við. Ómar er eins og segir með rætur í djassi en plata þessi er um leið góð birtingarmynd á því stílaflökti sem hann hefur alla tíð stundað. Það er eitthvað íslenskt við þetta, en hér á landi eru menn á margan hátt skilyrtir til fjölbreytni, ætli þeir að lifa á tónlist. En um leið er hún vottur um hvaða listamaður Ómar er, rekinn áfram af forvitni og lítilli eirð fyrir að binda sig við einn og sama hlutinn. Í Tommy Baldu hefur hann greinilega fundið félaga sem ýtir undir þessa hneigð. Platan er nefnilega sannfærandi og afar heilsteypt í þessum nokk óskilgreinanlega ham. Þetta er rokk að e-u leyti, bæði hæfilega súrt og hæfilega þægilegt. Tökum t.a.m. söng Ómars. Letilegur og á einhvern máta inn í sig, tilfinningaríkur og stundum er röddin uppi, stundum niðri og minnir hann þá á blöndu af félaga sínum Mugison og Magnúsi Þór - nývöknuðum. Talandi um Mugison, maður heyrir t.a.m. í Dröngum, bandinu sem Ómar, Mugison og Jónas Sig. stofnuðu.

Skælt

Í fyrirsögninni segir „skrítið, skælt og skítugt“, fyrstu tvö orðin eiga ágætlega við lagasmíðarnar en skíturinn liggur í hljóm plötunnar. Hann er frábær, þunglamalegur einhvern veginn en líka þvældur, eins og honum hafi verið stungið í þeytivindu. Það er erfitt að lýsa þessu. Sjá t.d. „Cinnamon Fire“, lag sem álpast áfram í þungu slagverki, ýlfrandi gítartónum og blúsuðum söng. Eins og Black Keys, væru þeir aðeins ævintýralegri. „One Way Track“ – besta lag plötunnar – er ógurlegt. Inniheldur það sem ég nefndi um „Cinnamon Fire“ en og haganlega útsetta strengi. Radiohead koma í hugann. Strengja- og slagverksorgían í restina er guðdómleg. Fleiri dæmi? „Take me Back“ er eins og lag sem varð eftir á upptökulotu Beck fyrir Sea Change, sungið af leiðtoga Eels. Góð plata og gefandi, eitt af því besta sem ég hef heyrt Ómar koma nálægt.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Roforofo

Popptónlist

Höfgi bundin hádramatík

Popptónlist

Einlægt og ágengt

Popptónlist

Gáskafullir gaurar, reffilegar rímur