Skógareldar í vínhéruðum Kaliforníu

09.10.2017 - 16:26
Fjöldi fólks varð að flýja að heiman í nótt og í dag vegna kjarr- og skógarelda í vínhéruðum Kaliforníu, Napa og Sonoma. Að minnsta kosti tvö sjúkrahús hafa verið rýmd. Sjónvarpsmyndir sýna hús og bíla alelda.

Los Angeles Times hefur eftir íbúa í borginni Santa Rosa í Sonoma að fólk hafi flúið í ofboði þegar það varð eldsins vart og ekkert skeytt um hvort grænt eða rautt logaði á umferðarljósum. Lögreglu hafa enn ekki borist upplýsingar um manntjón en margir hafa orðið að leita sér hjálpar á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum eftir að hafa fengið skrámur og reykeitrun.

Reykjarlykt frá eldunum finnst víða, meðal annars í San Francisco og suður til San Jose. Búðum hefur verið komið upp fyrir þá sem hafa orðið að flýja að heiman undan eldunum.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV