Skoðar aukna upplýsingagjöf um kjör þingmanna

13.02.2018 - 15:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Alþingi hefur haft til skoðunar að auka upplýsingagjöf um kjör og starfskostnaðargreiðslur alþingismanna og hefur málið meðal annars verið rætt í forsætisnefnd þingsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Steingrími J. Sigfússyni forseta Alþingis.

Í tilkynningunni er vísað í að alþingismönnum hafi síðustu daga borist margvíslegar fyrirspurnir um greiðslur tengdar starfi þeirra á Alþingi. „Af því tilefni vill forseti Alþingis koma því á framfæri að til skoðunar hefur verið á undanförnum mánuðum, og rætt m.a. í forsætisnefnd Alþingis, að auka upplýsingagjöf um kjör og starfskostnaðargreiðslur alþingismanna þannig að aðgangur að þeim verði öllum auðveldur og þær birtar á vef þingsins,“ segir í tilkynningunni. 

Þá kemur einnig fram að fyrir hafi legið í drögum reglur um fyrirkomulagið og hafi í þeim efnum verið horft til þess hvernig önnur þing haga upplýsingum um þessi mál. „Markmiðið er að engin leynd sé yfir neinu sem varðar almenn kjör og greiðslur til þingmanna og fullkomið gagnsæi ríki. – Þingmönnum er að auðvitað í sjálfsvald sett hvaða upplýsingum þeir koma sjálfir á framfæri um sín kjör, eins og verið hefur.“

Þá setgir að alþingi hafi með markvissum hætti reynt að skapa góða umgjörð störf og kjör þingmanna, þar á meðal með siðareglum og reglum um hagsmunaskráningu þingmanna sem séu á vef þingsins. Sú aukna upplýsingagjöf sem í vændum sé bætist þar við.

 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV