Skoða þarf skattlagningu á Bitcoin-gröft

08.01.2018 - 21:50
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson  -  RÚV
Þingmaður Pírata segir áhyggjuefni að stórir erlendir aðilar nýti ódýra íslenska orku í að grafa eftir Bitcoin-rafeyri og græða milljarða án þess að skilja nokkuð eftir í landinu. Nauðsynlegt sé að ræða hvort skattleggja skuli starfsemina.

Fyrir skemmstu vissu fáir aðrir en sigldustu tölvunördar hvað Bitcoin væri. Undanfarið hefur þessi rafeyrir hins vegar komist í almenna umræðu og í gær sagði fréttastofa frá því að starfsemi gagnavera hafi margfaldast hérlendis, einkum vegna þess sem kallað er gröftur eftir Bitcoin.

Fólk lánaði heimilistölvuna í að keyra Bitcoin-bókhaldið

Bitcoin er rafeyrir sem má nota til að stunda ýmis rafræn viðskipti, mörg hver lögleg, en einnig ólögleg – enda er gjaldmiðillinn illrekjanlegur til endanlegra eigenda sinna. Utan um þennan rafeyri er til bókhaldskerfi – skrá yfir allan gjaldeyrinn og allar millifærslur á honum. Afrit af þessari skrá er til hjá öllum sem eiga og sýsla með Bitcoin og hún uppfærist jafnóðum. Þetta kemur í veg fyrir svindl; vilji einhver hakkarinn krukka í sínu afriti stemmir það ekki lengur við öll hin og verður ógilt.

Til að viðhalda og reka þetta stóra bókhaldskerfi þarf öflugar tölvur. Í einfaldaðri mynd má segja að það sem kallað er að grafa eftir Bitcoin hafi í upphafi ekki verið annað en að lána reiknigetu heimilis- eða vinnutölvunnar í að keyra bókhaldskerfið í skiptum fyrir smáræði af Bitcoin.

Svo óx hagkerfið að umfangi og til að takmarka framboðið var ákveðið það yrði sífellt erfiðara að eignast Bitcoin – eftir því sem tíminn liði þyrfti til þess sífellt flóknari útreikninga og öflugri tölvur. Þegar svo Bitcoin-einingarnar í veröldinni yrðu tuttugu og ein milljón talsins yrði ekki meira gefið út. Þær eru nú orðnar á sautjándu milljón, en áætlað er að taki meira en heila öld að grafa eftir síðustu milljónunum.

Síðustu mánuði hefur Bitcoin margfaldast að vinsældum og virði. Einn kostar nú 1,7 milljónir króna og margir eiga ekki nema brotabrot af einum slíkum eyri. Kapphlaupið um gröftinn er orðið mikið og heilu tölvuverin gera ekki annað.

Segir Bitcoin ekki sérstaklega góða hugmynd

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, þekkir vel til Bitcoin-tækninnar. Hann segir að mikilvægt sé að vera opinn fyrir þeirri framþróun sem á sér stað. Bitcoin sé hins vegar ekki sniðugasta hugmyndin.

„Ég á von á því að á einhverjum tímapunkti muni verri hugmyndirnar, eins og að eyða mörgum megavöttum af orku í að framleiða eitthvað sem hefur mjög takmarkað verðgildi í raunveruleikanum - óháð spákaupmennsku - hverfa og betri hugmyndir koma í staðinn,“ segir Smári.

Nauðsynlegt sé að ræða hvort og þá hvernig eigi að skattleggja starfsemi sem þessa, þó án þess að hindra nýsköpun í landinu.

„Núna eru ótrúlega margir stórir aðilar sem eru að koma til Íslands og nota orkuna sem er mjög ódýr hérna til að búa til margra milljarða króna verðmæti og það verður ekkert eftir í landinu. Þetta veldur vissulega áhyggjum,“ segir Smári McCarthy, þingmaður Pírata.