Skoða hvaða sátt gæti náðst á vinnumarkaði

10.01.2018 - 19:39
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist  -  RÚV
Fulltrúar ríkisstjórnarinnar og vinnumarkaðarins þinguðu í dag um stöðuna á vinnumarkaði. Ljóst er að áhrif úrskurða Kjararáðs vega þar þungt.

 

Stjórnvöld hafa sagt að friður og sátt á vinnumarkaði sé eitt helsta mál ríkisstjórnarinnar. Úrskurðir Kjararáðs flækja stöðuna þar að mati talsmanna launþegahreyfinga sem fréttastofa ræddi við. Þegar á meðan flokkarnir þrír; Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, voru að ræða stjórnarmyndun var fundað með aðilum vinnumarkaðarins.

Forsætisráðherra hefur sagt að janúarmánuður verði nýttur í að funda um hvað sé framundan á vinnumarkaði. Fundað verður reglulega með fulltrúum vinnumarkaðarins og var fundað í dag í Ráðherrabústaðnum. Fjármálaráðherra sagði fyrir fundinn að  hugmyndin væri ekki að koma með kröfur og viðbrögð á honum.

„Nei, það er ekkert slíkt. Þetta eru ekki kjaraviðræður í neinum skilningi. Hér er bara verið að ræða rammann á vinnumarkaði, hvað við getum gert til þess að skapa betri sátt, hvaða atriði það eru sem heildarsamtökin leggja áherslu á bæði vinnuveitenda megin og stéttafélögin og hvað stjórnvöld geta gert til þess að leggja eitthvað af mörkum í sáttina. Það samtal fer alveg ágætlega af stað.“
Nú er þetta fundalota, áttu von á að það verði niðurstaða eftir þennan fund?

„Nei, ég á ekki von á því en mér finnst líka alveg eins líklegt að þetta gerist svona fund fyrir fund.“

 

 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV