Skjóti skökku við að ívilna ferðaþjónustunni

07.01.2018 - 17:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjármálaráð segir erfitt að rökstyðja það að ferðaþjónustan njóti skattaívilnana umfram aðrar atvinnugreinar. Það sé ekki til þess fallið að auka fjölbreytni í atvinnulífi og ýti undir innflutning ófaglærðs vinnuafls frekar en að auka þörf fyrir sérmenntað starfsfólk.

Fjármálaráð hefur það hlutverk að greina fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar, sem lögð var fram á þingi í desember en hefur ekki verið samþykkt. Þar er stefna stjórnarinnar til fimm ára skilgreind og útbúinn rammi um fjárútlát og efnahagsstjórn. Meðal þess sem fjármálaráð á að gera er að greina ýmsa þætti fjármálastefnunnar og hvernig hún samræmist ákvæðum laga um efnahagslegan stöðugleika.

Eitt af því sem fjármálaráð gerir athugasemd við eru skattfríðindi ferðaþjónustunnar. Greinin er í lægra þrepi virðisaukaskattskerfisins og horfið hefur verið frá áformum fjármálaráðherra síðustu ríkisstjórnar um að færa hana í efra þrepið.

Fjármálaráð vísar til mikils vaxtar ferðaþjónustunnar á undanförnum árum, sem hafi orðið til þess að krónan styrktist og samkeppnisstaða annarra útfutningsgreina versnaði. Fjármálaráð segir að skattafríðindi ferðaþjónustunnar verði til þess að hún eigi auðveldara með að draga til sín starfsfólk sem annars færi í aðrar greinar. Þetta sé því ekki til þess fallið að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Skattfríðindi ferðaþjónustunnar eru líka sett í samhengi við stefnu í menntamálum. Fjármálaráð segir að það skjóti skökku við að styðja sérstaklega ákveðna atvinnuvegi þar sem lítil þörf sé fyrir sérmenntað vinnuafl og meiri þörf fyrir að flutt sé inn ófaglært starfsfólk.