Skjálfti af stærð 7,6 undan strönd Hondúras

10.01.2018 - 04:16
Mynd með færslu
 Mynd: USGS
Öflugur og tiltölulega grunnur jarðskjálfti, 7,6 að stærð, skók Hondúras og aðliggjandi ríki seint á þriðjudagskvöld að staðartíma. Upptök skjálftans voru á tíu kílómetra dýpi nærri Stóru Svanseyju, um 150 kílómetra norður af strönd Hondúras. Snarpur eftirskjálfti, 4,3 að stærð, reið yfir hálftíma síðar.Upptök hans voru á svipuðu dýpi, en töluvert nær landi. Flóðbylgjuviðvörun var gefin út fyrir Hondúras, Belís, Jamaíka og hluta Kúbu og Mexíkós.

Engar fregnir hafa borist af manntjóni, slysum á fólki eða skemmdum á mannvirkjum enn sem komið er, en skjálftinn varð um tíu mínútum fyrir þrjú í nótt að íslenskum tíma. Juan Orlando Hernandez, Hondúrasforseti, upplýsti að almannavarnir ríkisins hefðu virkjað viðbúnaðarkerfi landsins, en hvatti fólk jafnframt til að halda stillingu sinni og bíða frekari upplýsinga. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV