Skjálftar við Fagradalsfjall á Reykjanesi

26.07.2017 - 11:42
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Jarðskjálfti fannst á suðvesturhorni landsins um tuttugu mínútum fyrir tólf í dag. Skjálftinn var 3,8 að stærð og upptök hans voru á fimm kílómetra dýpi. Skjálftinn var hluti af jarðskjálftahrinu við Fagradalsfjall á Reykjanesi, norðaustan Grindavíkur.

Í samantekt Veðurstofunnar kemur fram að upptök skjálftans hafi verið um þrjá kílómetra austan við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga. Hann var 3,8 að stærð og varð klukkan 11.40.

Skjálftinn fannst  víða á höfuðborgarsvæðinu og á Keflavíkurflugvelli.

Jarðskjálftahrina hófst við Fagradalsfjall í morgun. Tveir skjálftar mældust þrír að stærð, sá fyrri  kl. 07.27 og sá síðari kl. 07.56. Margir minni skjálftar hafa fylgt í kjölfar þeirra.

Díjana Una Jankovic, sem starfar í afgreiðslunni hjá Grindavíkurbæ, fann fyrst pínulítinn hristing á borðinu og tíu mínútum síðar miklu meiri hristing. Hún segir ekkert hafi skemmst. Það hafi ekki allir fundið fyrsta skjálftann en allir urðu varir við þann síðari. 

Harpa lék á skjálfi
Diljá Ámundadóttir, starfsmaður Hörpu í Reykjavík, var stödd á sjöundu hæð þegar jarðskjálftinn varð. „Maður fann svolítið fyrir því að vera hátt uppi í svona glerhjúpi. Það var svona smá auka upplifun í því,“ segir Diljá.

Hún segir að titringurinn hafi verið afgerandi og starfsmenn Hörpu hafi strax áttað sig á því að þetta væri jarðskjálfti. „Meðvitundin um að vera í svona stóru glerhýsi ýkti örugglega áhrifin af skjálftanum. Það titraði örugglega meira fyrir vikið. Ég þekki reyndar ekki eðlisfræðina á bak við þetta, en mér fannst alla vega eins og áhrifin væru meiri hér uppi,“ segir Diljá og tekur fram að tölvuskjárinn sem hún sat við hafi dúað í nokkrar sekúndur eftir að skjálftinn varð.

Söngfuglarnir á Twitter hrukku upp við skjálftann og tístu fregnum af honum um leið.

Mynd með færslu
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV
Gunnar Dofri Ólafsson