Skipstjórinn fékk tveggja mánaða dóm

10.01.2018 - 16:37
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Skipstjóri hjólabáts sem varð valdur að dauða kanadískrar konu árið 2015 var í dag sakfelldur fyrir manndráp af gáleysi. Hann var dæmdur til tveggja mánaða fangelsisvistar en refsingin er skilorðsbundin til tveggja ára. Hann var að auki sviptur ökuréttinum í hálft ár.

Réttað var yfir manninum í Héraðsdómi Austurlands en dómurinn var kveðinn upp í húsnæði Héraðsdóms Reykjavíkur í dag. Dómari komst að þeirri niðurstöðu að skipstjórinn hefði brotið gegn 215. grein almennra hegningarlaga, um manndráp af gáleysi, og ákvæðum umferðarlaga.

Skipstjórinn stýrði hjólabát á Jökulsárlóni 2015. Hann bakkaði bátnum á kanadíska fjölskyldu sem var á ferðalagi um Suðurland. Fjölskyldan sneri baki í hjólabátinn þegar honum var bakkað og heyrði ekki í honum vegna hávaða frá þyrlu. Fjölskyldan féll öll við, móðirin lenti undir hjólum bílsins og lést. 

Lögreglan á Suðurlandi gaf út ákæru á hendur manninum. Farið var fram á þriggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm og tíu mánaða sviptingu ökuréttinda. Skipstjórinn neitaði sök þegar málið var þingfest í Héraðsdómi Austurlands. Fjölskylda konunnar fór í fyrstu fram á 43 milljóna króna bætur úr hendi skiptstjórans en féll frá kröfunni við upphaf aðalmeðferðar.

Ekki náðist í verjanda mannsins og því óvíst hvort hann hafi tekið ákvörðun um að áfrýja dómnum eða ekki.