Skátarnir snúa aftur á Úlfljótsvatn

12.08.2017 - 20:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þórdís Arnljótsdótti  -  RÚV
Erlendu skátarnir sem þurfti að flytja frá Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni vegna nóróveirusýkingar snúa aftur þangað fyrr en áætlað var. Fyrsti hópurinn á að fara á Úlfljótsvatn í kvöld. Í gær og dag hefur verið unnið að því að sótthreinsa byggingar og aðra aðstöðu skáta á Úlfljótsvatni svo hægt væri að taka svæðið aftur í notkun. Upphaflega var stefnt að því að flytja fyrstu skátana aftur á Úlfljótsvatn annað kvöld en það gerðist sólarhring fyrr en að var stefnt.

„Eftir samráð við Heilbrigðiseftirlit og sóttvarnalækni á Suðurlandi þótti því ekki ástæða til að bíða lengur með að snúa til baka, þó svo að unnið verði eftir varúðarráðstöfunum á meðan beðið er eftir niðurstöðum sýnatöku,“ segir Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta, í fréttatilkynningu. „Til dæmis verður aðeins notað aðflutt flöskuvatn og farið eftir leiðbeiningum um ítarlegt hreinlæti, handþvott og þrif.“

181 skáti var fluttur frá Úlfljótsvatni vegna sýkingarinnar. Þeim var fyrst komið fyrir í fjöldahjálparstöð í Hveragerði áður en þeim sem ekki sýktust var fundinn annar næturstaður. Að því er fram kemur í tilkynningu frá Bandalagi íslenskra skáta útskrifuðust í dag margir skátanna sem veiktust. Unnið er að því að finna þeim öllum næturstað.