Sjúkrahótel tilbúið ári á eftir áætlun

13.01.2018 - 19:24
Útfærsla og framleiðsla á steinklæðningu utan á nýtt sjúkrahótel við Landspítalann við Hringbraut, hefur tafist um marga mánuði og klæðningin er ekki enn komin til landsins. Hótelið verður því ekki fullklárað fyrr en í fyrsta lagi í vor, ári á eftir áætlun. Það hefur staðið óeinangrað og óklætt að utan í allan vetur.

Framkvæmdir við sjúkrahótelið hófust í byrjun árs 2016, en það er fyrsti liður í Hringbrautarverkefninu svokallaða um nýjan Landspítala. Kostnaður við framkvæmdina er tæplega tveir milljarðar króna.

Upphaflega var gert ráð fyrir að sjúkrahótelið yrði opnað á vordögum 2017 en sá tímarammi stóðst ekki. Nú er stefnt að því að það verði opnað í vor eða sumar. Helsta ástæða tafanna er sú að steinklæðning, sem einnig er listskreyting hússins hönnuð af Finnboga Péturssyni myndlistarmanni, hefur verið tímafrekari í útfærslu og framleiðslu en gert var ráð fyrir. Klæðningin kostar á annað hundrað milljónir króna.

Húsið hefur því staðið óklætt í allan vetur, en á sama tíma eru framkvæmdir innanhúss í fullum gangi. Mikið mæðir á berri steypunni og einhver raki hefur komist inn í gegnum glugga. Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala, segir það ekki koma að sök þar sem húsið sé fullhitað.

„Sá raki sem hefur komist inn í húsið út af því að klæðningin er ekki komin, það hefur verið horft á að loka fyrir það. Það má segja að það sé kostur að húsið sé ekki klætt svona miðað við rakapróf,“ segir Gunnar. Það hafi verið sameiginleg ákvörðun verkkaupa og verktaka að halda áfram með frágang innanhúss. „Það var lagt upp með það að þessu verkefni yrði að fullu lokið síðasta sumar. Klæðningin hefur verið erfið, framleiðslan á henni og frágangur og annað og þess vegna hefur það verkefni sérstaklega dregist en allt annað er í góðum farvegi.“

Þórhildur Þorkelsdóttir
Dagný Hulda Erlendsdóttir