Sjóða horn í gæludýrafóður í Hnífsdal

09.01.2018 - 14:00
Kampi ehf
 Mynd: Jóhannes Jónsson  -  RUV.IS
Vinnsla á gæludýrafóðri úr lambshornum hófst í Hnífsdal fyrir skömmu. Þar eru lambshorn soðin, þeim pakkað og send til Bandaríkjanna. Áform eru um að sjóða 3500 horn á dag þegar fram í sækir. 

Send úr sláturhúsum vestur

Lambshornin eru send vestur úr sláturhúsum. Þar eru þau hituð í potti í nítíu gráður, slóin tekin innan úr þeim, hornin svo þurrkuð og þeim pakkað áður en þau eru send til Bandaríkjanna. Þar verður þeim svo pakkað í söluvænlegar umbúðir og seld sem gæludýrafóður, segir Pétur Ármann Jónsson, vinnslustjóri hornavinnslunar. Þá stendur til að nýta slóna úr hornunum þegar fram í sækir.

Fluttu fyrstu hornin án leyfis

Hornavinnslan er á vegum fyrirtækisins Fossa Enterprises en fjallað var fyrirætlanir fyrirtækisins á síðasta ári vegna 400 þúsund horna sem höfðu verið flutt til Bolungarvíkur og geymd þar í frysti án tilskilinna leyfa. Í reglum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim segir að sá sem flytur, tekur á móti og vinnur úr aukaafurðum matvælaframleiðenda verði að hafa leyfi til þess frá MAST sem fyrirtækið hafði ekki. Pétur Ármann, vinnslustjóri, segir að ekki sé unnið úr hornunum sem voru flutt vestur í fyrra heldur úr nýjum hornum og hefur fyrirtækið nú fengið leyfi frá MAST fyrir framleiðslunni. Upphaflega stóð til að fara af stað með framleiðsluna í Bolungarvík en vinnslan hefur nú fengið húsnæði í Hnífsdal.

Áform um að sjóða 3500 horn á dag

Búið er að ráða starfsfólk og starfa þrír til fjórir við að sjóða hornin og pakka. Pétur Ármann segir að markmiðið sé að vinna 3000-3500 horn á dag. Vinnslan sé ekki enn komin á fullt en á næstunni megi búast við því að fleira starfsfólk verði ráðið og bætt í framleiðsluna.