Sinnum með réttarstöðu sakbornings

12.10.2017 - 19:08
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson  -  RÚV
Einkarekna heimahjúkrunarfyrirtækið Sinnum hefur réttarstöðu sakbornings í rannsókn á andláti átta ára stúlku árið 2014. Rannsóknin hefur meðal annars beinst að upplýsingum sem fram komu í tilkynningu Sinnum til Landlæknis. Fyrirtækið var á dögunum dæmt til að greiða móður stúlkunnar skaðabætur þar sem andlát hennar var rakið til stórfellds gáleysis stjórnenda Sinnum.

Ella Dís Laurens þjáðist frá 15 mánaða aldri af ólæknandi taugasjúkdómi. Hún þurfti af þeim sökum alla tíð mikla aðstoð og umönnun og var undir lokin tengd öndunarvél í gegnum barkatúpu í hálsi. Árið 2013 gerði Reykjavíkurborg samning við einkarekna heimahjúkrunarfyrirtækið Sinnum um þjónustu við Ellu Dís í skólanum. Ella Dís fékk fylgd þroskaþjálfa í skólann en í mars 2014 forfallaðist hann og þá var annar, ófaglærður starfsmaður fenginn til að fylgja henni. Þann dag færðist öndunartúpa Ellu Dísar úr stað, með þeim afleiðingum að súrefnismettun hennar féll og hún hlaut af mikinn heilaskaða sem að lokum dró hana til dauða. Sinnum var á dögunum dæmt til að greiða móður stúlkunnar þrjár milljónir króna í miskabætur, en Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hefði með stórkostlegu gáleysi valdið andláti barnsins, með því að setja ófaglærðan starfsmann í aðstæður sem hún gat ekki ráðið við.

Rannsókn meðal annars beinst að tilkynningu Sinnum til Landlæknis

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur haft málið til rannsóknar en málið var sent til héraðssaksóknara í gær. Starfsmaðurinn sem hafði umsjón með Ellu Dís þennan dag hefur réttarstöðu sakbornings og samkvæmt upplýsingum frá héraðssaksóknara hefur Sinnum einnig réttarstöðu sakbornings. 

Fram kom í dómi Héraðsdóms að samkvæmt tilkynningu Sinnum til Landlæknis hafi starfsmaðurinn verið sérþjálfaður. Dómurinn komst aftur á móti að þeirri niðurstöðu að ekkert benti til að starfsmaðurinn hefði fengið nægilega fræðslu um umönnun barna í öndunarvél. Rannsókn lögreglu og saksóknara hefur meðal annars beinst að þessu.

Uppfært: Vegna misskilnings í svari héraðssakskóknara við fyrirspurn fréttastofu hefur orðalag fréttarinnar verið lagfært. Áður sagði að rannsóknin hefði meðal annars beinst að því hvort Sinnum hafi ekki greint rétt frá atvikum í tilkynningu til Landlæknis. Hið rétta er að rannsóknin hefur meðal annars beinst að efni tilkynningar Sinnum til Landlæknis, þ.e. hvort starfsmaðurinn hafi verið sérþjálfaður líkt og Sinnum hélt fram eða ekki.