Símasamband lítið kannað utan þjóðvegarins

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson  -  RÚV
Jarðvísindamenn og almannavarnir hafa í gær og í dag kynnt íbúum, viðbragðsaðilum og fyrirtækjum í ferðaþjónustu neyðaráætlun vegna Öræfajökuls. Um 60 manns voru á fundi með fólki í ferðaþjónustu í dag. Rögnvaldur Ólafsson hjá Almannavörnum segir að skoða verði símasamband í Öræfasveit og safna upplýsingum sem hægt er að nota til að skipuleggja viðbrögð við hugsanlegu eldgosi.

Bergljót Baldursdóttir fréttamaður er í Öræfum og hefur rætt við heimamenn og fólk í ferðaþjónustu. Það hefur helst lýst áhyggjum af símasambandi á svæðinu og viðbrögð ef nauðsyn krefur.

„Við erum í samvinnu við Póst- og fjarskiptastofnun við að mæla betur út sambandið á svæðinu. Það er búið að gera fínar mælingar á þjóðveginum en það er ekki búið að fara mikið út af honum hérna á svæðinu,“ segir Rögnvaldur. „Bæði ferðaþjónustuaðilar á fundinum núna og heimamenn á fundinum í gær fengu með sér spurningablað þar sem við erum að safna upplýsingum um þeirra upplifun á svæðinu og hvernig við getum best komið til þeirra boðum, þar á meðal hvernig þeir upplifa símasambandið. Þetta getur hjálpað okkur við hvaða svæði við eigum að skoða.“

Aðspurður hvort ráðast þurfi í framkvæmdir og verja fjármunum í að styrkja kerfið segir Rögnvaldur að hugsanlega þurfi að styrkja símasamband í Öræfum með svipuðum hætti og gert var á svæðinu í kringum Kötlu. „Það var farið í mikla vinnu með það til þess að við gætum tryggt það að við gætum komið boðum til allra á svæðinu. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða fyrir þetta svæði.“

Ekki gefst mikill tími til viðbragða eftir að eldgos hefst en Rögnvaldur segist vona að viðbrögð séu möguleg áður en til þess kemur. Samkvæmt hermilíkönum geta allt niður í 20 mínútur liðið frá því eldgos hefst þar til flóð er komið niður í byggð. „Það er gríðarlega skammur tími til viðbragðs en við búumst við því að vera búnir að fá góðar viðvaranir fyrir þann tíma, vísbendingar um að eitthvað sé að gerast, og þá verðum við búin að rýma svæðið.“

Rögnvaldur segir að það hafi verið mjög gagnlegt að hitta heimamenn og fólk í ferðaþjónustu. Til stóð að halda fundina í síðustu viku en það frestaðist vegna veðurs. Þá átti að fá viðbrögð frá fólki áður en viðbragðs var gefin út. „Fólk er mjög ánægt með þessa áætlun og að er ekkert í henni sem við þurfum að breyta eins og hún er í dag.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV