Síló Sementsverksmiðjunnar fallin

11.01.2018 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson  -  RÚV/Landinn
Síló Sementsverksmiðjunnar á Akranesi sem stóðu af sér tvær sprengingar eru fallin. Verktakinn byrjaði að rífa þau niður með vélum eftir að sprengingar dugðu ekki til. Því verki lauk í morgun.

Faxabraut, sem liggur við sjóinn við hlið verksmiðjunnar, hefur verið opnuð fyrir umferð á ný. Henni var lokað 30. desember þegar fyrri sprengingin mistókst og sílóin hölluðust í stað þess að falla.

Nokkurra mánaða vinna er framundan við að rífa þá hluta sementsverksmiðjunnar sem eiga að víkja fyrir nýrri byggð. Ákvörðun hefur ekki verið tekin um örlög turns Sementsverksmiðjunnar, hæsta mannvirkis Akraness og eins af táknum bæjarins.