Sigur gegn Svartfjallalandi

17.07.2017 - 13:44
Mynd með færslu
 Mynd: KKÍ
Íslenska drengjalandsliðið í körfubolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri lagði Svartfjallaland í dag í a-deild Evrópumótsins í Grikklandi. Þetta er fyrsti sigur liðsins í a-deild í þriðja leik.

Ísland vann með 60 stigum gegn 50 og átti Tryggvi Snær Hlinason stórleik í íslenska liðinu. Tryggvi Snær skoraði 19 stig og tók 13 fráköst. Kári Jónsson, fyrirliði íslenska liðsins, lék ekki með í dag vegna meiðsla og sigurinn því enn betri fyrir vikið.

Íslenska liðið varð í 3. sæti síns riðils á eftir Frakklandi og Tyrklandi og síðar í dag kemur í ljós hverjum liðið mætir í 16-liða úrslitum.

„Trúlega lendum við á móti Svíþjóð í staðinn fyrir Grikkland. Við erum búnir að spila við þá einu sinni á Íslandi og þekkjum liðið. Það er svakalega gott að lenda á móti þeim og ég tel að við getum unnið þá,“ sagði Tryggvi Snær Hlinason að leik loknum. 

Viðtalið við Tryggva Snæ má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Einar Örn Jónsson
íþróttafréttamaður