Sigketill Öræfajökuls víðari og orðinn ílangur

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Magnússon
Sigketill Öræfajökuls hefur víkkað á rúmum þremur vikum og sprungumynstur er orðið greinilegra. Þetta má sjá á nýjum gervitunglamyndum frá Bandarísku geimferðastofnuninni, NASA, sem teknar voru fyrir Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands.

Í færslu frá Eldfjallafræði og náttúruvárhópi Háskóla Íslands á Facebook kemur fram að slíkar myndir séu yfirleitt ekki teknar þegar sól er lágt á lofti eins og nú en NASA og Bandaríska jarðvísindastofnunin hafi gert sérstakar undanþágur frá þessu fyrir háskólann og Veðurstofuna til þess að hægt sé að fylgjast með þróun ketilsins í myrkasta skammdeginu. 

Í myndatexta segir að sprungumynstur í sigkatlinum hafi þéttst allmikið og að hann virðist hafa víkkað töluvert frá 17.nóvember, þegar fyrri myndin var tekin. Auk þess að hafa víkkað hafi lögun hans breyst frá hringformi í ílangt. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV