„Sígarettan varð eins og erindi“

08.07.2017 - 09:15
„Þingflokkurinn reykti alveg óskaplega og maður var hvort sem er nánast með tárin í augunum eftir tveggja tíma þingflokksfund,“ sagði Ragnhildur Helgadóttir, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra. Hún var um tíma eina konan á Alþingi og lang yngst í þokkabót, og tók upp sígarettureykingar til að falla betur inn í hópinn.

Ragnhildur Helgadóttir var meðal fyrstu kvenna hér á landi til að ljúka prófi í lögfræði við Háskóla Íslands. Hún valdi sér svo stjórnmálin sem starfsvettvang og varð sjötta konan sem átti sæti á Alþingi. Þar ruddi hún ýmsar brautir fyrir kynsystur sínar, tókst á við karla og konur til hægri og vinstri og sat tvisvar á ráðherrastóli á 35 ára tímabili, frá árinu 1956.

Hún var aðeins 26 ára gömul þegar hún komst fyrst inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var þá eina konan sem átti sæti á Alþingi. „Mér var tekið afskaplega vel, af mikilli kurteisi og elskusemi, og falin störf í nefndum og svo framvegis,“ sagði Ragnhildur.

Mynd með færslu
 Mynd: Brautryðjendur
Þingflokkur Sjálfstæðiflokksins 1956

„Maður varð stundum þreyttur á að sitja á löngum þingflokksfundum. Karlarnir stóðu upp og röbbuðu saman en ég átti ekkert sérstakt rabb erindi við neinn þeirra. Þannig að eitt árið gerið ég mér það erindi að fá mér sígarettu. Þingflokkurinn reykti alveg óskaplega og maður var hvort sem er nánast með tárin í augunum eftir tveggja tíma þingflokksfund. Þannig að sígarettan varð eins og erindi, til að standa upp og ganga um gólf.“

Reykingarnar entust þó ekki lengi hjá Ragnhildi. „Það var ekki liðið ár þegar mér fór að líða svo illa í maganum af þessum reykingum að ég steinhætti því og það var ekkert afrek.“

Ragnhildur Helgadóttir féll frá í byrjun árs 2016. Í sjötta og síðasta þætti Brautryðjenda, sem er á dagskrá RÚV á sunnudagskvöld, er fjallað um Ragnhildi en Eva María Jónsdóttir tók viðtal við hana fyrir þáttinn árið 2014. Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá brot úr þættinum.