Séu vakandi fyrir binditíma líkamsræktarstöðva

08.01.2018 - 16:26
Neytendur verða sjálfir að vera vakandi fyrir binditíma áskriftarkorta að líkamsræktarstöðvum, segir framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna. Mikið er kvartað undan því til samtakanna að binditími slíkra korta renni jafnvel ekki út, þrátt fyrir að þau séu til eins árs. Til að komast hjá þessu verða neytendur sjálfir að segja upp áskriftinni.

Fjölmargir taka sig á í hreyfingu og mataræði um áramót. Mjög mismunandi reglur gilda um árskort og önnur slík áskriftarkort á líkamsræktarstöðvum og segir Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna, að fólk verði að vera vakandi fyrir þessu. Dæmi séu um að fólk hafi greitt árum saman fyrir þjónustu sem það telur sig hafa sagt upp og nýtir ekki. Alltaf skuli segja upp áskrift skriflega.

Rætt verður við Brynhildi í Kastljósi.