Sérsveitarmenn standa vaktina á Fiskideginum

09.08.2017 - 10:40
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Búast má við mikilli öryggisgæslu á Fiskideginum mikla á Dalvík og verða vopnaðir sérsveitarmenn við löggæslu á svæðinu. Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra segir að sú stefna sem mörkuð var í vor, að herða gæslu á fjölsóttum viðburðum, hafi áhrif á undirbúning lögreglunnar fyrir stærstu helgar sumarsins.

Löggæslumál hafa verið nokkuð í umræðunni í sumar, einkum eftir að vopnaðir sérsveitarmenn stóðu vaktina í Litahlaupinu í Reykjavík. Ríkislögreglustjóri sagði að það væri gert vegna aukinnar hættu á voðaverkum, ekki síst í kjölfar hryðjuverka í nágrannalöndunum. Í framhaldi af því var tilkynnt að löggæsla yrði hert á fjölmennustu viðburðum sumarsins og mætti búast við vopnuðum sérsveitarmönnum á sumum þeirra. 

Meiri áhersla á að verja svæðin

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, var gestur í Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun og ræddi löggæslumál á Norðurlandi. Hún segir að undirbúningur lögreglu fyrir fjölmennar samkomur hafi verið með öðrum hætti í sumar en áður. „Já, það byrjaði kannski fyrir nokkru síðan. Það hefur verið meiri áhersla á að tryggja mannsöfnuðina, að ekki sé hægt að keyra inn í þá eða aðeins meiri hugsun á bak við það," segir Halla.

Til að mynda hafi stóru svæði verið lokað fyrir umferð á sparitónleikum Einnar með öllu sl. sunnudag. „Þannig að við erum meira með hugann við að verja betur svæðin þar sem fólk safnast saman. Það er auðvitað ekki hægt að gera allt, en það er meiri hugsun á bak við það,“ segir Halla. 

Mikill viðbúnaður á Fiskidegi

Um næstu helgi verður Fiskidagurinn mikli á Dalvík sem er fjölsóttasti viðburður ársins utan höfuðborgarsvæðisins. Venju samkvæmt lýkur deginum með tónleikum sem áætlað er að hátt í 30 þúsund manns hafi sótt í fyrra. Halla segir að nokkuð mikill viðbúnaður verði á hátíðinni. „Ég hugsa að á laugardagskvöldinu verði 12-13 almennir lögreglumenn og svo held ég að sérsveitin verði með tvo menn. Síðan er auðvitað ekki mikið að gera á Akureyri þessa helgi og við getum flutt menn þaðan,“ segir Halla. 

Þá verður leitast við að girða svæðið af og koma þannig í veg fyrir að hægt sé að keyra inn á það. „Það verða svona hindranir, eða umferðartálmanir, ég er nú ekki alveg búin að sjá hvernig það er, en sums staðar verða bílar og sums staðar verða gámar, það fer bara eftir því hvað hentar að setja,“ segir Halla.