Mynd með færslu
14.10.2017 - 10:19.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Sycamore Tree er dúett þeirra Ágústu Evu Erlendsdóttur og Gunna Hilmarssonar. Shelter, fyrsta breiðskífa hans, inniheldur áferðarfallegt og hægstreymt rökkurpopp. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Sycamore Tree var stofnaður í fyrra en atrennan er þó mun lengri. Gunni hefur samið tónlist um langa hríð, af margvíslegum toga, en fór að semja í þessa kvísl, ef hægt er að orða það svo, fyrir c.a. tveimur til þremur árum síðan. Um er að ræða áferðarfallega popptónlist, dálítið melankólísk og haustleg, dálítið erlendis líka og svalt pastelpoppið kallar fram hin og þessi nöfn; Nina Persson (The Cardigans), Beth Gibbons (Portishead), Sarah Cracknell (Saint Etienne), Isobel Campbell (Belle and Sebastian og þá sérstaklega plötuna Swansong For You sem hún gerði undir nafni Gentle Waves). Sjálfur nefndi Gunni Lisu Ekdahl og Cörlu Bruni í viðtal við Morgunblaðið og það er alveg rétt.

Það er eitthvað franskt í þessu, eitthvað skandinavískt og eitthvað enskt (!), þjóðlagakeimur yfir þéttofnum hljómavefnum sem einkennist af strengjum, gítarslætti, gömlum orgelum og bergmálandi söng Ágústu Evu. Söngur hennar gefur lögunum þá áferð sem þau kalla á í raun og gerir hún það af miklu öryggi og fagmennsku. Það er mikill stílhreinleiki yfir öllu hér, það passar allt, veri það ljósmyndir eða tónlist og maður vissi nokkurn veginn hvernig tónlistin myndi hljóma þegar maður sá mynd af tvíeykinu. Og eðlilegt að passað sé upp á þetta, sé litið til starfa Gunna í tískuheiminum.

Heilsteypt

Platan rúllar annars áfram á afskaplega heilsteyptan máta og er valinn maður í hverju rúmi. Ómar Guðjónsson útsetur, Bjarni Frímann og Georg Kári Hilmarsson sjá um strengjaútsetningar og Eyþór Gunnarsson, Samúel Jón Samúelsson og Magnús Tryggvason Elíasen leggja dúettnum lið við uppökurnar. Magnús Öder hljóðblandaði, og eins og sjá má, ekki veikan blett að finna hvað þennan þátt varðar. Gott rennsli plötunnar er stundum á kostnað fjölbreytileikans, sum lögin eru full óeftirtektaverð, nefni t.d. „Full of Love“, „Don‘t let Go“ og „Home“. Þau standa alveg sem partur af hljóðmynd en ein og sér eru þau heldur munaðarlaus og tilþrifalaus. Það sem bjargar þeim fyrir horn eru glúrnar útsetningar, skemmtileg hljóðmynd og skringileg hljóðfæranotkun sem kryddar þau skemmtilega.

Höfn

Önnur lög ná hins vegar glæsilega í höfn og viðlög oft sérstaklega sterk, sjá t.d. titillagið og „Trouble“. Hið fyrrnefnda byggist upp á hægum inngangi, bornum uppi af hvíslandi en þó ágengri röddu Ágústu og svo er hnykkt á framvindunni með dramatísku viðlagi. Eins er með „Trouble“, það er nánast Tom Waits-legur andi yfir og söngrödd Ágústu vel bergmálandi og reykfyllt. Fínasta frumraun, þegar allt er saman tekið.