Segja smálánafyrirtækin brjóta lög

13.02.2018 - 22:19
Smálánafyrirtækin brjóta lög með starfsemi sinni, segir framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna. Samtökin hafa óskað eftir því að ráðherra grípi til aðgerða því fyrirtækin virðist óstöðvandi.

Æ fleira ungt fólk leitar sér aðstoðar hjá umboðsmanni skuldara. Smálán eru sífellt stærri hluti af heildarkröfum þeirra sem leita til embættisins og eru þau nú orðin algengari en fasteignalán. Í Kastljósinu í kvöld var fjallað um smálán. Neytendasamtök hafa gagnrýnt smálafyrirtækin harðlega.

„Það er í rauninni þessi hái kostnaður. Og ekki nóg með það þá eru þessi fyrirtæki að brjóta þessi lög. Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu, áfrýjunarnefnd neytendamála og héraðsdómur Reykjavíkur. En fyrirtækin halda samt sem áður áfram. Það er annað mál núna fyrir dómstólum. Í síðustu viku sendum við erindi á ráðuneytið þar sem við fórum fram á að það væri gripið til einhverra aðgerða, því það er líka búið að sekta þessi fyrirtæki, hvort það voru 500.000 króna dagssektir sem voru settar á í fyrra en þau halda samt alltaf áfram og virðast óstöðvandi sem er mikið áhyggjuefni og það verður að grípa til einhverra aðgerða,“ segir Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna. 

„Lögin sem sett voru 2013 voru mjög mikilvæg og Neytendastofa hefur verið að úrskurða í þessum málum en það er eins og úrræðin séu ekki nógu sterk því fyrirtækin virðast hafa hag af því að standa í málarekstri fyrir dómstólum og þéna greinilega það mikið að þau geta farið í hvert málið á fætur öðru,“ segir Brynhildur.