Segir Fiskistofu hafa náð fyrri styrk

11.01.2018 - 10:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fiskistofustjóri segir að stofnunin sé ekki veikari í dag en áður en hún var flutt til Akureyrar fyrir tveimur árum. Flutningurinn kostaði hátt í 200 milljónir króna.

Árið 2014 ákvað Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar. Það gerðist svo í janúar 2016. Ákvörðunin mætti mikilli andstöðu og margir sögðu upp störfum. Á endanum fór svo að Fiskistofustjóri var eini starfsmaðurinn sem flutti norður með höfuðstöðvunum. 

Krefjandi að yfirfæra þekkingu

Eyþór Björnsson, Fiskistofustjóri, segir að það hafi verið áskorun að manna höfuðstöðvar með nýju fólki. „Við vorum búin að missa frá okkur talsverðan fjölda af fólki og yfirfærsla þekkingar var stóra áskorunin, að ná því, en það hefur gengið vonum framar,“ segir Eyþór. 

Ferlið tekið skemmri tíma en talið var

Í úttekt Ríkisendurskoðunar frá 2016 er haft eftir Eyþóri að flutningurinn hefði neikvæð áhrif á starfsgetu stofnunarinnar í þrjú til fjögur ár. Fiskistofa leggur nú lokahönd á skýrslu um flutninginn og Eyþór segir að útlitið sé betra en talið var að það yrði. Fiskistofa hafi náð fullri starfsgetu, sem sjáist einkum á fjölda mála hjá stofnuninni. „Við sjáum alveg jákvæð merki í starfseminni hjá okkur sem er vísbending um að við séum síst verr sett nú en þegar við fórum af stað í þetta verkefni,“ segir Eyþór. 

Vill ekki svara því hvort þetta hafi verið mistök

Í skýrslunni er einnig lagt mat á kostnað. „Kostnaðurinn við flutninginn sem slíkan, við erum nú bara með bráðabirgðatölur sem við eigum eftir að skoða til enda, en hann er á bilinu 160 til 180 milljónir,“ segir Eyþór. 

Þá er ótalinn kostnaður við að hafa höfuðstöðvar á Akureyri, um 10 milljónir króna á ári, sem er að mestu tilkominn vegna ferða starfsfólks. Eyþór segir að þótt ríkið hafi varið auknu fé í þetta verkefni falli hluti kostnaðarins á stofnunina. Fjárhagsstaðan sé þröng og hefur starfsfólki fækkað um 16 frá 2012. Hann vill ekki svara því hvort það hafi verið mistök að flytja, en að draga megi lærdóm af ferlinu. Biðin og óvissan í kringum flutningana hafi verið Fiskistofu dýrkeypt. „Ég myndi horfa sérstaklega til þess að skýra alla þætti og hafa óvissu sem minnsta, sérstaklega sem snýr að starfsfólki,“ segir Eyþór.