Segir að varnarsigrar hafi unnist á Raufarhöfn

13.01.2018 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sveitarfélagið Norðurþing hefur ákveðið að ráða í nýtt starf atvinnu- og samfélagsfulltrúa á Raufarhöfn, nú þegar þróunarverkefni Byggðastofnunar þar er lokið. Sveitarstjórinn segir margt hafa áunnist, en Raufarhöfn sé áfram jaðarbyggð sem þurfi að styðja við.

Í gær skilaði Byggðastofnun formlega af sér verkefninu „Raufarhöfn og framtíðin" sem undanfarin fjögur ár hefur verið hluti af byggðaþróunarverkefninu „Brothættar byggðir." Raufarhöfn er í Norðurþingi og nú flyst ábyrgð verkefnisins yfir til sveitarfélagsins.

Nýr starfsmaður tekur við keflinu

„Við höfum ákveðið það að Norðurþing leggi fram sérstakt aukaframlag til Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga sem verði til þess að hér verði auglýst nýtt starf á Raufarhöfn, einhvers konar atvinnu- og samfélagsfulltrúa starf sem komi til með að taka við endum hér við þessi tímamót,“ segir Kristján Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings.

Og í ljósi sögunnar sé nauðsynlegt að starfsmaður sem þessi sé á staðnum til að drífa ákveðin verkefni áfram og stuðla að áframhaldandi eflingu byggðar á Raufarhöfn. Þetta þýði aukin útgjöld fyrir Norðurþing sem felist í að greiða fyrir eitt starf og starfsaðstöðu. „Sveitarfélagið hefur auðvitað aðstoðað í verkefninu sem slíku hjá Byggðastofnun með aðstöðusköpun og fleira,“ segir Kristján. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þarf áfram að styðja við byggðina

Kristján segir ýmislegt hafa áunnist á Raufarhöfn á fjórum árum. Þar sé jákvæðara yfirbragð að mörgu leyti og þar búi fólk sem hafi trú á byggðalaginu. Þetta sé þó áfram jaðarbyggð sem nauðsynlegt sé að hlúa að og ráðning þessa starfsmanns sé skref í þá átt að viðhalda árangri og spýta í lófana varðandi fleiri tækifæri.

„Þetta er alltaf svolítið huglægt mat hvernig hlutirnir voru og hvernig þeir eru. En menn þurfa auðvitað ekki annað en að horfa á innviði eins og það að hingað sé komið ljósleiðarasamband, að náðst hafi að tryggja byggðakvóta og fleira sem skiptir byggðina auðvitað gríðarlega miklu máli og ýmsir innviðir sem menn hafa náð varnarsigrum í,“ segir Kristján. 

Mynd með færslu
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Mynd með færslu
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV