Sannfærður um að veggjöld falli niður

06.01.2018 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bæjarstjórinn á Akranesi segist sannfærður um að ekki verði innheimt veggjöld í Hvalfjarðargöng þegar ríkið tekur við þeim í sumar. Fulltrúar bæjarins funduðu með ráðherra um málið í gær.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra sagði í fréttum RÚV á fimmtudag að til greina kæmi að innheimta áfram veggjöld í Hvalfjarðargöng eftir að þeim verður skilað til ríkisins í sumar. Áður hafði staðið til að hætta að innheimta veggjöld þá.

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi fundaði í gær með Sigurði Inga ásamt tveimur bæjarfulltrúum, til að ræða þessi mál og önnur samgöngumál sem tengjast Akranesi og Vesturlandi í heild. Hann segir ljóst að göngunum verði skilað til ríkisins næsta sumar þó að nákvæm tímasetning liggi ekki fyrir. „Og þá verða þau gjaldfrjáls eins og samkomulagið hefur verið um árabil þannig að það mun standa. Ég er sannfærður um það eftir þennan fund að ráðherra deilir þeim skilningi.“

Sævar segir að á fundinum hafi einnig verið rætt um nauðsynlegar samgöngubætur á Vesturlandi. Samstaða sé meðal sveitarfélaga á Vesturlandi að leggja megináherslu á uppbyggingu á Kjalarnesi. „Það er hættulegasti vegurinn og mikilvægast að það verði ráðist í hann. Þetta er vegur utan við Vesturlandssvæðið þannig að það er einstakt að við séum að biðja um samgöngubætur utan við okkar svæði.“

Sævar segir að áhersla sé lögð á  tvöföldun vegarins um Kjalarnes, en einnig tvöföldun Hvalfjarðarganga. „Tvo mánuði á áru er umferð þar yfir þau mörk sem göngin heimila. Það þarf því að huga að því að tvöfalda Hvalfjarðargöngin. Þetta er samtal sem þarf að eiga sér stað til að tryggja öryggi þeirra sem eru að aka þarna á milli.“

 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV