Samræmdar aðgerðir skortir

13.01.2018 - 21:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Viðbragðsáætlanir vegna kynferðisofbeldismála eru mismunandi eftir íþróttafélögum. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur ekki samræmdar reglur um hvernig skuli bregðast við kynferðisáreitni og -ofbeldi.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru þær 62 frásagnir íþróttakvenna af kynferðislegu ofbeldi og misbeitingu, sem þær sendu frá sér á fimmtudag, einungis toppurinn á ísjakanum. Fréttastofa hefur leitað upplýsinga hjá íþróttafélögum um verkferla og viðbrögð þegar slík mál koma upp. 

Hjá Knattspyrnufélaginu Val er starfandi siðanefnd sem fer með öll mál sem tengjast áreitni og ofbeldi innan Vals, en í tilkynningu á vef félagsins segir að setja þurfi vinnu gegn kynbundnu ofbeldi og áreiti í enn frekari forgang. Hjá Aftureldingu varðar kynferðislegt áreiti brottrekstur frá félaginu. Samkvæmt viðbragðsáætlun Fylkis er öllum málum er varða ólögráða einstaklinga, þar sem gerandi er fullorðinn, vísað til lögreglu, en ef báðir aðilar eru undir lögaldri er málinu vísað til barnaverndaryfirvalda. 

Á tíu ára tímabili hafa komið upp fimm atvik hjá íþróttafélaginu KR, þar sem gerandi var rekinn vegna ósæmilegrar hegðunar. Tvö mál voru kærð til lögreglu. Á sex ára tímabili voru fjögur tilvik hjá Aftureldingu og Val, þar sem þjálfararar, leikmenn eða starfsmenn gerðust sekir um ósæmilega hegðun gagnvart stúlkum. Tvær þeirra voru undir lögaldri. Gerendur voru reknir frá félögunum, nema einn sem hætti sjálfur þegar málið komst upp.

Mynd með færslu
Jóhann Már Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Aftureldingar og Vals.  Mynd: RÚV

Mikilvægt að utanaðkomandi fagaðilar komi að málunum

„Ég hef rekið mig á það að þeir fara að starfa annars staðar innan hreyfingarinnar, kannski skömmu síðar, og það er mjög umhugsunarvert að mínu viti,“ segir Jóhann Már Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Aftureldingar og Vals. „Það mætti vera eitthvað miðlægt ferli sem grípur þessi mál innan félaganna, að það sé samhæfing milli allra félaganna um hvernig sé tekist á við þetta og að sú vinna sé leidd af ÍSÍ,“ segir hann.

Mikilvægt sé að fagaðili komi að þessum málum því að félögin séu þannig að það geti verið mjög erfitt að takast á við málin. Fólk þekkist vel innan félaganna. „Í minni bæjarfélögum er þetta kannski sérstaklega erfitt, ég þekki það ekki persónulega, en klárt mál, það þarf í rauninni alltaf einhver utanaðkomandi aðili að leiða þessa vinnu, ég held að það sé langfarsælast.“

Stuðningsyfirlýsing eftir dóm fyrir brot gegn 15 ára stúlku

Athygli vakti fyrr á árinu þegar Tindastóll sendi frá sér stuðningsyfirlýsingu við leikmann liðsins, sem var í apríl dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn fimmtán ára stúlku. Brotin áttu sér stað fyrir tveimur árum, en þá var leikmaðurinn hjá Val. 
Þá hefur víða verið gagnrýnt innan körfuknattleiksgeirans að dæmdur kynferðisbrotamaður, Sigurður Ágúst Þorvaldsson, skuli leika með meistaraflokki eftir að afplánun lauk. Sigurður Ágúst fékk uppreist æru í fyrra, en hann var dæmdur í tveggja ára fangelsi árið 2010 fyrir nauðgun á sautján ára stúlku. Hann neitaði sök fyrir dómi, en samkvæmt dóminum gat stúlkan ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar. Sigurður Ágúst leikur nú með KR.