„Samkynhneigð er meðfædd“

12.08.2017 - 20:49
Eikynhneigðir voru í fyrsta skipti með sérstakt atriði í Gleðigöngu Hinsegin daga sem farin var í glampandi sólskini í dag. Fyrrverandi dómkirkjuprestur segir samkynhneigð meðfædda og því vera sköpun guðs.

Veðurguðirnir brostu við Gleðigöngunni í ár eins og flest önnur ár þegar gengið var  frá Hverfisgötu að Hljómskálagarðinum. Strætó tók í fyrsta skipti þátt í gleðigöngunni og segir vagnstjóri gleðivagnsins hamingjuna ráða ríkjum um borð.

Þú keyrir hérna gleðivagninn, hvernig tekur fólk í það að stíga upp í svona vagn hjá þér?

Það er vægt til orða tekið bara mjög hamingjusamt og ánægt með allar skreytingar á vögnunum og gleðigönguvagninn,“ segir Sólrún Trausta Auðunsdóttir, vagnstjóri hjá Strætó.

En það var ekki bara Strætó sem fór í fyrsta skipti í Gleðigöngu. Fólk sem skilgreinir sig sem eikynhneigt var í fyrsta sinn með sitt eigið atriði í göngunni.

Gyða, nú eru eikinhneygðir að ganga í fyrsta sinn í Gleðigöngunni. Hvað er eikynhneigð?

Eikynhneigðir eru einstaklingar sem laðast ekki kynferðislega að öðrum en við erum hérna líka að representa þá sem laðast ekki á rómantískan máta að öðrum. Þeir eru oft kallaðir aromantic á meðan eikynhneigðir eru á ensku asexual,“ segir Gyðar Bjarkardóttir.

Hinsegin fólk ber að mati göngufólks skarðan hlut frá borði í kvikmyndum. Þau vildu draga athygli að þessu.

„Illmennið er oft málað upp sem hinsegin. Dramatískir, pínulítið kvenlegir. Svo maður taki dæmi sem allir þekkja - Skari í Lion King er rosalega queer coded,“ segir Hans Jónsson, gjaldkeri Hinsegin Norðurlandi

Kirkjunnar menn létu sig ekki vanta í gönguna og voru þar með skýr skilaboð.

„Ég er fyrst og fremst prestur og mæti hér sem slíkur. Af því mig langar til að sýna þessu fólki stuðning kirkjunnar. Þegar ég sannfærðist um að samkynhneigð er meðfædd þá er hún sköpun guðs. Þar eiga allir að vera jafnir, gagnvart, fyrir guði,“ segir Þórir Stephensen, fyrrverandi dómkirkjuprestur.

Þó svo að Ísland sé framarlega í að tryggja réttindi samkynhneigðra þá getur verið hættulegt að opinbera kynhneigð sína víða erlendis.

„Í fjöldamörgum löndum í heiminum er samkynhneigð ólögleg. Við erum að berjast fyrir því að samkynhneigð verði lögleg þannig að fólk geti fengið að elska hvort annað hvar sem er í heiminum. Fólk er fangelsað fyrir það eitt að vera það sem það er, sem sagt samkynhneigðir,“ segir Þórkatla Halldórsdóttir, stjórnarmaður í unglingaráði Amnesty International. 

Fleiri fögnuðu fjölbreytileikanum en Íslendingar. Kelly gerði sér til að mynda ferð til Íslands til að mæta í gönguna. 

„Við komum til Íslands því okkur hefur alltaf langað að koma og tímasettum heimsóknina í takt við gönguna því við vildum taka þátt í henni. Konan mín er hérna líka. Okkur fannst það bara frábær leið til að koma,“ segir Kelly.

Gunnar Dofri Ólafsson