Samið við Jáverk um byggingu fyrsta áfanga

11.01.2018 - 06:51
Mynd með færslu
 Mynd: Sigtún Þróunarfélag
„Þessa dagana er verið að ganga frá lausum endum varðandi fjármögnun, leigusamninga við væntanlega leigutaka og samkomulag við aðra lóðarhafa innan deiliskipulagssvæðisins,“ segir Leó Árnason framkvæmdastjóri Sigtúns Þróunarfélags sem vinnur að uppbyggingu að nýjum miðbæ á Selfossi.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Árborgar, segir að vonast sé til þess að lokið verði við að fara yfir og vinna úr þeim athugasemdum sem bárust vegna deiliskipulagstillögunnar í janúar.

Frestur til að skila inn athugasemdum rann út um mánaðamót ágúst og september í fyrra. 

Mynd með færslu
 Mynd: Sigtún Þróunarfélag

Leó segir að samningur liggi fyrir um framkvæmdina. „Við höfum tekið tilboði frá verktakafyrirtækinu Jáverk á Selfossi um byggingu á fyrsta áfanga sem telja þrettán hús,“ segir Leó. Í húsunum verði fjölbreytt starfsemi; verslun, veitingar og þjónusta auk íbúða. „Stærsta einstaka húsið í fyrsta áfanga er endurbygging á gamla Mjólkurbúi Flóamanna sem reist var árið 1929 en síðar rifið.“ Í húsinu verði Skyrheimar, sýning eða safn um skyr og sögu þess. Safnið verði byggt upp í samstarfi við MS.

Ásta segir að margar af athugasemdunum við tillöguna að deiliskipulagi hafi snúið að lóðamörkum. Farið hafi verið yfir það og fundað með eigendum viðkomandi lóða. „Við erum að klára þá vinnu. Ég á von á því að það verði í janúar.“

Mynd með færslu
 Mynd: Sigtún Þróunarfélag

Ásta segir að í hluta athugasemda hafi íbúar lýst áhyggjum af því að miðbæjargarðurinn, Sigtúnsgarður, myndi minnka. Þar hafa bæjarhátíðir verið haldnar síðustu ár. „En við náðum samkomulagi við framkvæmdaraðilann um að garðurinn myndi stækka. Við erum byrjuð á hönnunarvinnu garðsins þar sem íbúum er boðin aðkoma bæði með sínar hugmyndir og svo verða vinnustofur og samráðshópar. Við vorum að semja við arkitekt sem hefur umsjón með hönnuninni. Verkefnið byrjar í janúar.“

Leó segir að framkvæmdir hefjist þegar deiliskipulagið hefur verið samþykkt. 
 

Mynd með færslu
 Mynd: Sigtún Þróunarfélag