Saka Wall Street Journal um falskar fréttir

14.01.2018 - 05:25
epa06427327 US President Donald J. Trump participates in a meeting on immigration with bipartisan members of the House and Senate in the Cabinet Room of the White House in Washington, DC, USA, 09 January 2018.  EPA-EFE/SHAWN THEW
 Mynd: EPA-EFE  -  EPA
Í tilkynningu frá Hvíta húsinu er því vísað á bug að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hafi sagt að hann ætti „líklega ágætis samband við Kim Jong-Un" leiðtoga Norður Kóreu, í viðtali við blaðamann Wall Street Journal, sem birt var á fimmtudag. Sarah Huckabee Sanders, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, fullyrðir á Twitter að blaðamaður hafi rangt eftir forsetanum og þetta séu því falsfréttir.

Jákvæð ummæli Trumps í garð Kims í viðtalinu vöktu að vonum töluverða athygli, enda hefur Bandaríkjaforseti ekki vandað Kim kveðjurnar til þessa. Í viðtalinu segir Trump að þótt það komi eflaust einhverjum á óvart, þá eigi hann iðulega mjög gott samband við fólk, og þeir sem hann skammast út í á Twitter eina stundina geti verið orðnir góðvinir hans skömmu síðar.

Í Twitterfærslu sinni segir Sanders forsetann hafa talað í viðtengingarhætti: „Trump forseti sagði, ÉG MYNDI líklega eiga ágætis samband við Kim Jong-Un frá Norður Kóreu. ÉG MYNDI - ÉG MYNDI - ÉG MYNDI. EKKI ÉG Á!" Þannig hljóða skilaboð Sanders, sem ritaði orðin „ÉG MYNDI" með rauðu. Færslan er sett upp sem hálfgerð eftirlíking af forsíðu Wall Street Journal, með frasann FALSKAR FRÉTTIR stórum stöfum á rauðum borða yfir nafni blaðsins og setningarnar „FALSKAR FRÉTTIR VIÐ SAMA HEYGARÐSHORNIÐ og HAFA RANGT EFTIR TRUMP FORSETA þar undir. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV