Sagður hafa greitt fyrir þögn klámmyndastjörnu

14.01.2018 - 10:17
epa06306227 US President Donald J. Trump (L) respond to a question from the news media as First Lady Melania Trump (R) listens prior to boarding Marine One on the South Lawn of the White House in Washington, DC, USA, 03 November 2017. President Trump is
Donald Trump ræðir við fréttamenn fyrir brottförina til Austurlanda fjær.  Mynd: EPA-EFE  -  EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er í bandarískum fjölmiðlum sagður hafa greitt klámmyndaleikkonunni Stormy Daniels 130 þúsund dollara fyrir að þegja um skyndikynni sem hún átti með forsetanum fyrir 11 árum eða skömmu eftir að forsetafrúin Melania Trump eignaðist son þeirra Barron. Önnur klámmyndastjarna fullyrðir jafnframt að henni hafi verið boðið að vera með.

Wall Street Journal greindi frá kynnum Daniels og Trumps á föstudag og að Michael Cohen, lögfræðingur Trumps, hefði greitt henni 130 þúsund dollara fyrir að þegja um fund þeirra. 

Cohen vísaði þessum fréttum á bug og sendi fjölmiðlum yfirlýsingu í nafni Daniels. Þar kom meðal annars fram að ef hún hefði átt í sambandi við Trump hefði almenningur ekki lesið um það í fjölmiðlum heldur bók.

Í frétt Guardian af málinu kemur fram að nokkrir fjölmiðlamenn hafa á móti fullyrt að Daniels, sem réttu nafni heitir Stephania Clifford, hafi rætt um samband sitt við Trump í samtölum sínum við þá, til að mynda vefsíðan Daily Beast. Í frétt vefsíðunnar er jafnframt rætt við aðra klámmyndastjörnu að nafni Alönu Evans sem segir að Daniels hafi talað um fund sinn og Trump við sig. 

Mál þriðju klámmyndastjörnunnar hefur sömuleiðis komið upp á yfirborðið. Hún heitir Jessica Drake og í október 2016 sakaði hún forsetann um að hafa káfað á sér á golfmóti fyrir um áratug. Trump er jafnframt sagður hafa boðið henni 10 þúsund dollara og afnot af einkaþotu sinni ef hún kæmi upp á hótelherbergi með honum og færi með honum í veislu. 

Talsmaður Drake sagði hana ekki geta tjáð sig um neitt sem viðkæmi Trump - hún mætti ekki einu sinni nefna hann á nafn vegna trúnaðarsamnings sem hún gerði við forsetann.

Mynd með færslu
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV