Saga af minnsta leikhúsi Þýskalands

Berlín
 · 
kreuzberg
 · 
Leikhús
 · 
Leiklist
 · 
Pistill
 · 
Pistlar
 · 
svala arnardóttir
 · 
Víðsjá
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá

Saga af minnsta leikhúsi Þýskalands

Berlín
 · 
kreuzberg
 · 
Leikhús
 · 
Leiklist
 · 
Pistill
 · 
Pistlar
 · 
svala arnardóttir
 · 
Víðsjá
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
11.02.2018 - 10:00.Halla Harðardóttir.Víðsjá
„Hlutverk okkar leikara er að hreyfa við innstu tilfinningum fólks,“ segir stofnandi, eigandi, framkvæmdastjóri, leikmunahönnuður, leikstjóri og leikari minnsta leikhúss Þýskalands. Svala Arnardóttir fjallaði um leikhúsið í pistli frá Berlín í Víðsjá.

Svala Arnardóttir skrifar frá Berlín:

Berlín er margslungin borg og býr yfir mörgum leyndarmálum. Eitt af þeim er litla kjallaraleikhúsið í Kreutzberg . Garn leikhúsið er minnsta leikhúsið í Þýskalandi, rekið af leikaranum Adolfo Assor sem er 72 ára. Hann er sonur þýsks bónda sem yfirgaf Þýskaland og settist að í Chile. Í útlegðinni var sá gamli harður á því að sonurinn lærði almennilega þýsku sem hann og gerði, að eigin sögn mest með því að lesa Franz Kafka. Þegar svo einræðisherrann Pinochet tók völdin í Chile 1973 með hörmulegum afleiðingum, flúði Adolfo til Þýskalands.

 Hann hefur byggt leikhúsið sitt frá grunni í orðsins fyllstu merkingu því hann byggir leikmyndirnar úr dóti sem hann finnur á ruslahaugum og ljóskastarana bjó hann til úr rörum úr gömlum ofnum. Adolfo er eini starfsmaðurinn og situr sjálfur í miðasölunni með heimagerða aðgöngumiða úr ruslpappír og heilsar gestum með handabandi. Í kjallaranum sem er sex metrum undir jörðu komast fjörutíu  manns í sæti. Í fyrstu var Adolfo með átta sýningar á viku en nú tuttugu og fimm árum seinna er hann orðin eldri og kvöldin í kjallaranum farin að smjúga meira í merg og bein vegna rakans og kuldans. Nú hefur hann mest fimm sýningar á viku en hver sýning er um klukkutími. Stundum koma tuttugu manns og stundum bara tveir, en ég sýni alltaf þó að það komi bara tveir segir leikarinn en viðurkennir að stemningin þegar svona fáir koma sé ekki nógu góð og þá komi heldur ekkert í kassann.

Hann gagnrýnir stofnana leikhúsin þó hann hafi starfað í þeim sjálfur ásamt því að leika í kvikmyndum. Hann segir að leikari verði að hafa nærveru sem snerti fólk: “ Hlutverk okkar leikara er að hreyfa við innstu tilfinningum fólks“  

Kvöldið sem ég fór í kjallaraleikhúsið hans Adolfo Assors voru tuttugu manns mættir. Kertaljós loguðu við innganginn og í miðasölunni var hann sjálfur lágvaxinn, kvikur og brosmildur. Horfði athugull á gestina og gantaðist. Svört tjöld héngu hátíðleg hér og þar og húsgögn og dót af flóamörkuðum og ruslahaugum er stillt upp af mikilli umhyggju, nákvæmni og snyrtimennsku.

Þegar klukkan sló brá Adolfo sér á bak við eitt tjaldið, skipti um föt og kom svo fram í þunnum vindjakka og gaf gestunum merki um að koma. Áhorfendur gengu inn í lítinn sal með mjög mikilli lofthæð, allt svartmálað. Ekki ólíklegt að þessi vistarvera hafi verið nýtt sem loftvarnarbyrgi í síðari heimstyrjöldinni. Kuldinn og fúkkalyktin stakk undarlega í stúf við snyrtilega uppröðun stóla og teppin sem voru lögð snoturlega á stólbökin.

 Þetta kvöld sýndi Adolfo Assor mónólóg byggðan á smásögunni „Draumur hlægilegs manns“ eftir Dostoevsky. Sagan birtist fyrst í bókinni „Dagbók rithöfundar“ sem kom út árið 1877. Sagan er eintal sem verður mónólóg Adolfo. Eina persónan er karlhetja sem á í miklu sálarstríði, þar sem hann efast um allt og mest um sjálfan sig. Ekkert skiptir lengur máli og hann er hlægilegastur og aumkunarverðastur allra. Hann ákveður að drepa sig en dreymir undarlegan draum þar sem hann fer bæði ofan í gröfina og líka til himna. Allt þetta lék hinn sjötíu og tveggja ára Adolfo af mikilli innlifun, tilburðum og einlægni. Hann prílaði upp langan stiga og tyllti sér á stól í himnaríki þar sem hann á samræður við fólk sem vill honum vel. Síðan kolmyrkvaðist salurinn og leikarinn hvarf ofan í gröfina þar sem regndropar þrýstu sér í gegnum kistulokið. Þegar svo leikarinn gekk upp að áhorfendum rétt í lokin og horfði í augu hvers einasta manns í salnum varð stemningin sérkennilega brothætt. Adolfo var að leita að því góða í augum áhorfenda. Í algjörri þögn færði hann sig á milli gestanna sem komust ekki hjá því að horfast í augu við leikarann. Hvað Adolfo skynjaði í augum áhorfenda lét hann ósagt.

Ógleymanleg stund í leikhúsi þar sem einum leikara án allra hjálparmeðala og tækni undra tekst að skapa dýrmæta leiksýningu um manninn og mennskuna.