Ronaldo hetja Real - Öruggt hjá Liverpool

14.02.2018 - 21:38
epa06525740 Real Madrid's Cristiano Ronaldo (L) celebrates with his teammate Marcelo (R) after scoring the 1-1 equalizer from the penalty spot during the UEFA Champions League round of 16, first leg soccer match between Real Madrid and Paris Saint
 Mynd: EPA-EFE  -  EFE
16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu héldu áfram í kvöld þegar Real Madrid fékk Paris Saint-Germain í heimsókn. Portúgalinn Cristiano Ronaldo sá til þess að heimamenn fara með eins marks forystu inn í síðari leikinn en hann skoraði tvívegis í 3-1 sigri. Þá vann Liverpool öruggan 5-0 sigur á Porto í Portúgal og er liðið svo gott sem komið áfram í 8-liða úrslitin.

Real Madrid 3 - 1 PSG

Leikur Real og PSG byrjaði af krafti og bæði lið sóttu stíft í upphafi. Cristiano Ronaldo fór fyrir sínum mönnum og gerði sig líklegan oftar en einu sinni í upphafi leiks. Það var því gegn gangi leiksins sem Adrien Rabiot kom gestunum frá París yfir eftir að knötturinn hrökk til hans inn í vítateig á 33. mínútu. 

Það virtist sem PSG myndi fara með eins marks forystu inn í leikhléið en á 43. mínútu var brotið á Toni Kroos innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Á punktinn steig Ronaldi og skoraði hann af miklu öryggi. Hans tíunda mark í Meistaradeildinni í ár og hans 100. fyrir Real Madrid í keppninni.

Síðari hálfleikurinn var opinn og skemmtilegur en hvorugu liði virtist ætla að takast að skora. Á 79. mínútu gerði Zinedina Zidane, þjálfari Real Madrid, tvöfalda skiptingu er hann setti Lucas Vazquez og Marcos Asensio inn á. 

Asensio átti svo sannarlega eftir að koma við sögu en á 83. mínútu gaf hann fyrir markið og tókst Alphonse Areola, markverði PSG, ekki betur en svo að hann varði knöttinn út í teiginn þar sem hann lenti í Ronaldo og flaug í netið. Stuttu síðar var Asensio aftur á ferðinni en að þessu sinni lagði hann upp mark fyrir Marcelo. 

Lokatölur 3-1 og Real Madrid í góðum málum fyrir síðari leik liðanna.

Porto 0 - 5 Liverpool

Liverpool varð annað enska liðið til að vinna stórt á tveimur dögum en Manchester City vann Basel 4-0 í gær. Sigur Liverpool var aldrei í hættu en þeir voru eins og lokatölur gefa til kynna mikið mun betri aðilinn í leiknum.

Liverpool skoraði tvisvar á fjórum mínútum í fyrri hálfleik. Fyrst skoraði Sadio Mané og aðeins nokkrum mínútum síðar skoraði Mohamed Salah sitt 30. mark á tímabilinu. Þannig var staðan í hálfleik.

Í síðari hálfleik bættu gestirnir við tveimur mörkum en Mané skoraði sitt annað mark á 53. mínútu. Liverpool menn voru hvergi nærri hættir en Roberto Firmino kom þeim í 4-0 á 69. mínútu og þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma þá fullkomnaði Mané þrennu sína og tryggði Liverpool glæsilegan sigur á Estadio do Dragao vellinum í Portúgal.

Lokatölur 5-0 og Liverpool svo gott sem komið í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður