Reiður franskur pönduhúnn mættur til leiks

13.01.2018 - 16:32
Erlent · Dýr · Evrópa
Yuan Meng, fimm mánaða pönduhúnn, kom í dag fyrir sjónir almennings í fyrsta sinn í dýragarðinum í Beauval í Frakklandi. Yuan Meng er fyrsti pönduhúnninn sem fæðist í Frakklandi og kemst á legg, og hefur áður vakið athygli fyrir skapstyggð.

Hinn rauðleiti Yuan Meng fæddist 4. ágúst. Tvíburabróðir hans drapst skömmu eftir fæðingu en Yuan Meng hefur dafnað vel og er nú ellefu kíló að þyngd — við fæðingu var hann einungis 143 grömm — og er eldhress af þessum myndum að dæma. 

Fjöldi fólks lagði leið sína í dýragarðinn í dag til að berja húninn augum í fyrsta sinn. 

Yuan Meng er sonur pönduparsins Yuan Zi og Huan Huan sem komu til Beauval-dýragarðsins í janúar 2012. Eins og aðrar pöndur eru foreldrarnir í láni frá kínverska ríkinu til tíu ára og húnn þeirra sömuleiðis eign kínverska ríkisins.

Búist er við því að hann fái að vera í Frakklandi til tveggja eða þriggja ára aldurs en verði þá að snúa aftur til gamla landsins. 

Nafn Yuan Mengs þýðir „draumur sem rætist“. Nafnið var tilkynnt formlega í athöfn með kínverskum fyrirmennum og Brigitte Macron, forsetafrú Frakklands, í byrjun desember. Húnninn virtist ekki sérlega ánægður með nafnið og urraði og virtist ætla að stökkva á forsetafrúna.