Raufarhöfn: Búin að spyrna okkur frá botninum

Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur  -  RÚV
13.02.2018 - 15:12
Fyrir 5 árum síðan mat Byggðastofnun það svo að Raufarhöfn væri sú byggð í landinu sem stæði hvað höllustum fæti. Þá var árið 2012 og byggðin hafði gengið í gegnum röð áfalla sem höfðu leitt til þess að íbúum fækkaði um meira en helming á 15 árum. Fór úr rúmlega 400 í innan við 200 íbúa. Kvótinn var á bak og burt og búið að loka bræðslunni.

Staða Raufarhafnar á þessum tíma leiddi til þess að þorpið varð fyrsta viðfangsefni Byggðastofnunar í verkefninu Brothættar byggðir - og þannig fyrirmynd annarra verkefna víðar á landinu. En hefur staða Raufarhafnar batnað? 

Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur  -  RÚV
Birna Björnsdóttir skólastjóri.

„Já ég tel að við séum búin að spyrna okkur frá botninum og nú bara er þetta upp á við,“ segir Birna Björnsdóttir, skólastjóri í grunnskólanum og íbúi á Raufarhöfn.

Stærsti sigurinn er líklega sá að fyrir tilstuðlan sértæks byggðakvóta er frystihúsið nú í fullum snúningi allt árið um kring og þar hafa 34 fasta vinnu. Um áramótin lauk Byggðastofnun aðkomu sinni að verkefninu á Raufarhöfn en sveitarfélagið og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga munu vinna áfram á sömu nótum.

Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur  -  RÚV
Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings segir erfitt að dæma um hvaða þættir verkefnisins hafi skilað árangri og hverjir ekki. Það hafi þó verið afar mikilvægt að hafa verkefnisstjóra sem bjó í þorpinu, varð hluti af samfélaginu og vann að styrkingu þess í samvinnu við heimamenn.

„Íbúar sannarlega vilja taka þátt í því að byggja upp sitt pláss og um það snýst auðvitað alltaf málið. Að þeir sem að ætla sér að búa á staðnum, það verður í krafti þeirra sem svona þróun snýst við,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur  -  RÚV
Gísli Þór og Angela.

Angela Agnarsdóttir er uppalin á Raufarhöfn og hún er nýlega flutt aftur heim. Hún segir að sér hafi fundist hún geta gert meira fyrir samfélagið á Raufarhöfn heldur en ef hún byggi annarsstaðar. Undir það tekur Gísli Þór Briem, maðurinn hennar.

„Það skiptir hver einasti einstaklingur máli í bænum eða þorpinu.  Þó að kannski eins og í Reykjavík, eitt starf skiptir kannski ekki voða miklu máli, þá skiptir eitt starf hérna rosalega miklu máli,“ segir Gísli Þór.

Þetta er hluti af umfjöllun Kveiks um stöðuna og lífið á Raufarhöfn. Ítarlegar verður fjallað um málið á RÚV og ruv.is í kvöld klukkan 20.00.

Kveikur
Mynd með færslu
Sigríður Halldórsdóttir
dagskrárgerðarmaður