Rauði síminn var ekki sími

10.01.2018 - 16:55
Nýlega áttu stjórnvöld í Norður- og Suður-Kóreu viðræður, það var í fyrsta skipti í tvö ár sem fulltrúar grannanna á Kóreuskaga settust að borðum og ekki er langt síðan bein samskipti þeirra hófusta að nýju með daglegum símtölum yfir landamærin. Fulltrúar bæði Suður- og Norður- Kóreumanna hittust í friðarþorpinu Panmunjom sem er í hlutlausa beltinu á landamærunum og ræddu þar um þátttöku Norður-Kóreumanna á Vetrarólympíuleikunum sem hefjast í suðrinu í næsta mánuði og endurfundi fjölskyldna.

Í byrjun árs var greint frá því að Kóreuríkin tvö hefðu opnað að nýju samskiptalínur sín á milli og 3. janúar svöruðu Norður-Kóreu símtali að sunnan í fyrsta sinn í tvö ár. Reyndar var það nú svo að þegar síminn hringdi klukkan níu að morgni svaraði enginn. Það var vegna þess að menn höfðu gleymt að reikna með hálftíma tímamismun sem hefur verið á þeim frá því sumarið 2015 þegar Norður-Kórea seinkaði klukkum til þess tíma sem landsmenn fylgdu áður en Japanir lögðu Kóreuskaga undir sig 1910. 

Er eitthvað að frétta?

Hálftíma síðar voru menn mættir í vinnuna norðan landamæranna og sáu væntanlega að þeir höfðu misst af símtali og svöruðu því. Að sögn suðurkóresku fréttastofunnar Yonhap var samtalið nokkurn veginn á þessa leið. Suður-Kóreumaðurinn spurði: Er eitthvað að frétta? 
Svarið við því heldur stuttaralegt: Nei, sagði kolleginn fyrir norðan en bætti svo við: Við höfum samband ef við höfum frá einhverju að segja.  

Þrátt fyrir þetta heldur stirðbusalega samtal rættust vonir Suður-Kóreumanna að því myndu fylgja beinar viðræður. Þó að þar hafi helst verið rætt um samskipti á vettvangi íþróttanna og ekkert um kjarnorkuæfingar Norður-Kóreumanna þykja þær flestum góðs viti, þó að skrefið sé stutt. 

En aftur að símanum og beina sambandinu, hvaða máli skiptir það? Í gömlum spennumyndum varð frægur rauði síminn, sem tengdi forystumenn stórveldanna í austri og vestri saman og gaf þeim færi á beinum samskiptum. Oftar en ekki hringdi hann á ögurstundu og veröldinni var forðað frá tortímingu og kjarnorkuvetri.  Í þessu broti úr myndinni Dr. Strangelove má sjá Peter Sellers í hlutverki bandaríska forsetans tala við sinn sovéska kollega. Þeirri mynd lýkur reyndar með alls herjar sprengjufári. 

Reyndar var síminni aldrei rauður og eiginlega heldur ekki sími framan af, heldur var lengst af bara hægt að senda textaskeyti á milli.  Það var ekki beint símasamband milli leiðtoga Hvíta hússins og Kremlar fyrr en undir lok síðustu aldar. Raunin er sú að það er fjöldinn allur af beinum línum sem tengja leiðtoga ríkja. Í greiningu Foreign Policy er farið yfir sögu samskipta forystumanna á óvissutímum aftur til þess þegar Kennedy Bandaríkjaforseti og Krústjoff aðalritari sovéska kommúnistaflokksins urðu pennavinir og tóku að skrifast beint á eftir að Svínaflóakrísunni lauk. Þá er talið að veröldin hafi verið á barmi heimsstyrjaldar. Sumarið 1963 voru svo sett upp tvö telextæki, annað í varnarmálaráðuneytinu í Pentagon og hitt í höfuðstöðvum kommúnistaflokksins í Moskvu og þau tengd með sérstökum og helguðum símalínum sem lágu heimsálfanna á milli. 

Þar með gátu leiðtogarnir skipst á boðum þó á textaformi væri og það fljótt, síðar varð þetta fax tæki og svo boðskiptaleið um gervihnött. Í sex daga stríðinu 1967 fullvissuðu leiðtogar Bandaríkjanna og Sovétríkjanna hvor annan um að þeir myndu ekki blanda sér í stríðsátökin. Svipuð samtöl áttu sér stað þegar til átaka kom milli Indlands og Pakistans nokkrum árum síðar sem og í Kýpurdeilunni og það hefur svo þróast í áranna rás. 

Sólarhringsvakt við beinu línuna

Beint samtal varð ekki mögulegt fyrr en á tíunda áratug síðustu aldar. Textaskeytin eru að miklu aflögð en þó ekki að fullu og sambandið á milli Washington og Moskvu er prófað á klukkutíma fresti allan sólarhringinn. Þar sitja þýðandi og starfsmaður sem er ætlað það hlutverk að miðla upplýsingum og þessi boðskiptaleið er reyndar ekki notuð nema í sérstökum tilfellum. Nú taka forsetar Bandaríkjanna reglulega upp tólið sjálfir og hringja beint í aðra leiðtoga hvort sem eru bandamenn eða fjendur og hafa líka tekið í þjónustu sína gemsa og rafpóst. Það er ekki talinn nokkur vafi á því að styttri boðleiðir hafi oftar en ekki hjálpað til að draga úr spennu og forðast átök.