Rannsókn að hefjast á Hellisheiði

13.01.2018 - 12:04
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson  -  RÚV
Ekkert liggur fyrir um orsök eldsvoðans í Hellisheiðarvirkjun í gær en rannsókn lögreglu er að hefjast. Slökkvilið Árnessýslu stóð vaktina í alla nótt eftir að eldurinn blossaði aftur upp síðdegis í gær.

 

Orkuvinnsla í Hellisheiðarvirkjun er að komast í eðlilegt horf eftir að eldur kom þar upp  um ellefu leitið í gærmorgun. Eldurinn kom upp í þaki stöðvarhússins og talið er að logað hafi í um tvo tíma í þakinu og loftræstibúnaði. Eldurinn blossaði svo aftur upp um fjögur leitið í gær, að sögn Sverris Hauks Grönli, aðstoðarslökkviliðsstjóra Brunavarna Árnessýslu. Því hafi slökkviliðið staðið vaktina við virkjunina í alla nótt og fram undir hádegi í dag. Nú er hinsvegar verið að afhenda lögreglu vettvanginn og mun hún rannsaka hver eldsupptök voru en ekkert liggur fyrir um þaðá þessari stundu.

Samkvæmt tilkynningu frá Orku Náttúrunnar mun bruninn engin áhrif hafa á orkuafhendingu til almennings, hvorki á rafmagni né heitu vatni. Viðgerðir á stöðvarhúsinu hófust í mogun og svo virðist sem tækjabúnaður hafi sloppið við skemmtir. Vegna brunans verður jarðhitasýning, í virkjuninni, lokuð fram í næstu viku, að minnsta kosti.

 

Mynd með færslu
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður