Rannsókn á máli föður á Suðurlandi lokið

05.01.2018 - 10:45
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Rannsókn lögreglu á alvarlegu kynferðisbrotamáli föður á Suðurlandi er lokið. Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhald yfir honum til 24. janúar. Maðurinn er grunaður um að hafa nauðgað tveimur dætrum sínum. Fram kemur í greinargerð lögreglustjórans á Suðurlandi að við rannsókn málsins hafi komið fram nýjar upplýsingar um frekari brot föðurins gegn annarri dótturinni.

Maðurinn var fyrst úrskurðaður í gæsluvarðhald í  nóvember og var það framlengt í byrjun desember. Hann er grunaður um að hafa nauðgað tveimur dætrum sínum þegar þær voru barnsaldri.

Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að annað málið sé komið í ákærumeðferð hjá héraðssaksóknara. Þar er manninum gefið að sök að hafa nauðgað dóttur sinni oftar en einu sinni. Brotin eru sögð hafa verið framin á heimili þeirra.

Lögreglustjórinn segir að rannsókn á máli hinnar dótturinnar sé lokið og það verði sent embætti héraðssaksóknara á næstu dögum. Framburður dótturinnar sé metinn afar trúverðugur og ekkert hafi komið fram sem gefi tilefni til að draga hann í efa á nokkurn hátt. Faðir hennar hafi nauðgað henni þegar hún var fimm til sex ára. 

Lögreglustjórinn segir enn fremur að við rannsókn málsins hafi komið fram nýjar upplýsingar um frekari brot föðurins en það mál hefði áður verið komið inn á borð héraðssaksóknara. Viðbótarrannsókn sé lokið og málið verði sent saksóknara á næstu dögum. 

Maðurinn hefur áður hlotið dóm fyrir kynferðisbrot. Fyrir 27 árum var hann dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir ítrekuð brot gegn elstu dóttur sinni. Hún var fimm til sjö ára þegar hann braut gegn henni. Lögreglustjórinn telur óforsvaranlegt að maðurinn gangi laus, hann sé hættulegur umhverfi sínu og brotin sem hann er grunaður um þess eðlis að það myndi stríða gegn réttarvitund almennings að hann fengi að ganga laus. 

Mynd með færslu
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV